föstudagur, desember 11, 2009

Harpa

Mér finnst nafnið á tónlistarhúsinu gott. Að velja nafn á eitthvað sem á að standa um aldir er ekki spurning um að vera brilljant. Þess vegna er betra að velja gott nafn en frábært nafn. Hef á tilfinningunni að af þeim rúmlega fjögur þúsund nöfnum sem úr var að velja hafi þetta nafn fljótlega skorið sig úr. Það er allavega mín reynsla sem gamals refs úr nafngjafabransanum.

Tónlistartengingin er augljós. Harpan er hljóðfæri Appólóns og vísar þannig til hinna æðstu lista guðs forms og fagmennsku. Harpa er fyrsti mánuður sumars í gamla tímatalinu okkar og tengir þannig hina evrópsku hámenningu við íslenskan gróanda og óbeislaða sköpun. Harpan er ekki hávært hljóðfæri og hefur þannig tengingu við hið lágværa og ljóðræna, fínleikann.

Ef nafnið hefði verið valið 2007 óttast maður að fyrir valinu hefði annaðhvort orðið eitthvað hraungrýtisnafn með klisjukennda tengingu við hið grófasta í íslenskri náttúru eða menningu, eða þá allsendis ótónlistartengt nafn þar sem hagsmunir viðskipta og alþjóðlegs ráðstefnukúltúrs hefðu ráðið.

Það veit á gott að hin ómþýða og lágmælta Harpa gefur tóninn.

Og vel mæltist Agli Ólafssyni við athöfnina. Þetta langþráða hús, baráttumál tónlistarmanna á Íslandi áratugum saman, er sennilega eitt það mikilvægasta af varanlegum verðmætum sem hrifsað hefur verið úr klóm fjármálafávitanna. Fólk sem þykir það eiga að standa óklárað sem "minnisvarði um hrunið", er klárlega að gleyma því hvað á að fara þar fram. Nema svoleiðis fólk hafi ekki eyru, heldur einungis munn.

Óleyst er hvernig umhverfi hússins verður þróað þegar við blasir að þar verði ekki hátimbruð heimsviðskiptamiðstöð og höfuðstöðvar Icesave-bankans. En tónlistarhúsið er hús tónllistarinnar - ekki peninganna.

Það verður svo verkefni þeirra sem fylla Hörpuna af tónum að gera það á þann hátt að allir með eyru eigi þangað erindi.

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Mér fannst samt Jóns Leifsstöð ansi gott.

Við verðum síðan að sýna og sanna að þetta hús verði fyrir okkur öll, ekki bara snobbpakkann sem stór hluti þjóðarinnar er sannfærður um að muni verða einráður þarna inni bæði sem flytjendur og áheyrendur.

(og já, ég er hluti af nefndum snobbpakka ;) )

9:03 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Jón Leifsstöð er fyndið.

Það væri gaman ef öllum fyndnu nöfnunum væri safnað saman einhversstaðar. Kannski grafin í gler í anddyri Hörpunnar.

Og já - passa snobbið.

12:32 f.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Hrunið var það besta sem gat komið fyrir tónlistarhúsið. Það tekur kannski aðeins lengri tíma að byggja það, en það er vel þess virði ef það losnar í staðinn við að verða Tónlistar- og viðskiptamusteri Mammons og Bjólfanna.

(Sem getur vel verið að það hefði þá heitið.)

Og snobbið þarf að passa. Hálfvitarnir, Ham og Hjaltalín þurfa klárlega allir að spila á vígslutónleikunum. Sálin og Sinfó, Megas og Selma Björns.
Og Bubbi.

12:03 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim