föstudagur, nóvember 07, 2008

Öxlum ábyrgðina!

I could have known
I should have known
I didn't know


Svona hljóðaði málsvarnarmantra Alberts Speer, einkavinar Hitlers og stríðsmálaráðherra. Með þessum orðum firrti hann sig ábyrgð á helförinni. Um sannleiksgildi síðustu línunnar hafa margir efast, og engin spurning er að hann vissi um margt voðaverkið, sem sum hver voru klárlega á hans verksviði - og ábyrgð.

Það er mikið talað og spunnið um ábyrgð þessa dagana. Við viljum draga til ábyrgðar þá sem það eiga skilið.

ahhh!

Þetta var byrjunin á löngum og (mögulega) leiðinlegum pistli sem ég ætlaði að skrifa. Þar ætlaði ég m.a. að koma inná hið svívirðilega "spin" sumra valdamanna og -kvenna að það að vera að gera eitthvað í málunum væri "að axla ábyrgð" .

En ég nenni ekki að skrifa þennan pistil.

Þess í stað ætla ég að reyna að starta trendi. Vona að lesendur Varríusar fylgi í kjölfarið.

Ég ætla að axla mína ábyrgð.

Björgólfur vildi meina í moggaviðtalinu fræga að pupullinn hefði eytt og spennt og þessvegna værum við í klandrinu.

Ef við gerum öll grein fyrir okkar þennsluhvetjandi uppátækjum og öðru fjármálatengdu siðleysi má gera ráð fyrir að vegvilltir stjórnmála- og braskmenn fylgi góðu fordæmi, eða hvað?

Svo hér kemur það:

Við höfum hvorki kosið Sjálfstæðis- né framsóknarflokk. Ég hef kosið Samfylkingunna, konan mín ræður sjálf hvort hún ljóstrar upp um hvað hún kýs.

Við hjónin stækkuðum við okkur húsnæði, þó við strangt tekið kæmumst alveg fyrir í risíbúðinni góðu. Tókum einar 6 milljónir að láni til 20 ára. Þetta var hjá Íbúðarlánasjóði og rétt áður en húsnæði byrjaði að hækka fyrir alvöru. Greiðslubyrðin er alveg viðráðanleg.

Við höfum farið nokkrum sinnum til útlanda undanfarin ár. Stundum jafnvel bara til að skemmta okkur.

Ég hef keypt mér nokkur hljóðfæri. Sum dýr (fagottið mitt) sum tilgangslaus (helvítis sekkjapípan).

Fólksbíl einn notaðan keyptum við. Búin að borga hann fyrir nokkrum mánuðum.

Almennt séð höfum við auðvitað notið góðs af sérkennilegu gengi, mögulega borðað betri mat en við áttum skilið, keypt fleiri bækur, CD og DVD en var beinlínis í þjóðarhag og almennt nýtt kaupmátt okkar í samræmi við það sem efni virtust standa til.

Fyrir nokkrum árum þáði ég boð ríkisins um að kaupa hlutabréf gegn skattaafslætti. Þau bréf eru nú að engu orðin. Ég skæli ekki yfir því, en óneitanlega þykir mér mennirnir sem stjórnuðu viðkomandi fyrirtækjum hafa staðið sig illa.

Þetta er alltsvo mín ábyrgð - hver er þeirra?

Og hvar er þín?

Varríus hvetur lesendur sína til að axla sína ábyrgð og játa góðærissyndir sínar. Við getum ekki krafist þess af öðrum sem við treystum okkur ekki í sjálf

7 Ummæli:

Blogger Þorbjörn sagði...

Góð hugmynd! Tók þig á orðinu.

10:47 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég og konan keyptum okkur íbúð með láni frá ÍLS, verðtryggt. erum undir 25 ára og í námi. Er það synd ? gleymdu því. Fyrir mér eru allar forsendur brostnar. Við erum búin að missa vinnuna og horfum upp á verðtryggt lán rjúka langt umfram það sem Seðlabankinn hefur nokkru tímann spáð.

Við erum á þeim aldri sem neyddist til að kaupa dýrt húsnæði, það var ekkert annað í boði. Á 80% láni, 20% voru sparnaðurinn okkar.

3:39 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég ætla að játa hér. Ég fór stundum út að borða í hádeginu og eyddi gjarnan 1.200 kr. þegar smurt nesti hefði dugað. Að vísu langaði mig þá ekki í mikinn mat á kvöldin og borðaði stundum ristað brauð með osti í kvöldmat.

Ég á hreyfanlega fartölvu sem ég ferðast með innan íbúðar. Ég keypti hana 2005 en hefði getað látið þá eldri duga (hlunkur).

Ég er áskrifandi að fjöldamörgum erlendum stöðvum. RÚV sem ég verð að vera áskrifandi að hefði vel getað dugað. Ég horfi varla nóg miðað við kostnaðinn.

Ég var heilar fimm vikur í sumarfríi í sumar, sat í garðinum og las, dreypti á svala og borðaði vínber. Ég hefði getað unnið aukavinnu, nóg var af henni.

Klikka samt á þessu stóra, skulda ekki húsnæðislán og á ekki bíl.

BerglindSteins

5:14 e.h.  
Blogger Geirinn sagði...

Jahérna, ég seldi 12 ára gamlan bílinn minn og tók svo lán upp á 550.000 kr. til 5 ára. (Ég er námsmaður sko) Til þess að fjárfesta í nýrri skrjóð sem btw, var dísill vegna þess að díesel átti nú jú að verða ódýrari og hagkvæmari kostur skv. stefnu ríkisstjórnarinnar.
Þetta lán er orðið 3 ára gamalt og síðast þegar ég tékkaði átti ég eftir að borga 400.000 kr af því, þökk sé hinni yndislegu verðtryggingu sem við elskum öll innilega.

Svo datt mér í hug að fartölva væri kannski hagkvæmur kostur varðandi námið, eitt stk svoleiðis líka á Eurocard sko.

Einnig á ég eina haglabyssu...

Ójá! Svo hef ég náttúrulega verið alveg voðalega duglegur að fjárfesta í bókum á Amazon.com sökum náms og lestraráhuga....

Ætli það hafi ekki verið kornið sem fyllti mælinn og sendi Glitni, viðskiptabankann minn skríðandi til Davíðs?

Ég skammast mín voðalega og bið þjóðinna afsökunar á þessu voðaverki og mun segja af mér ef ég kemst einhvern tímann í embætti sem býður upp á slík.

Takk fyrir og fyrirgefið mér.

8:34 e.h.  
Blogger Hallveig sagði...

búnað blogga um syndir mínar.. guð fyrirgef mér því ég veit eigi hvað ég gjöri!

10:25 e.h.  
Blogger Unknown sagði...

Ég játaði mínar syndir. Þetta er allt mér að kenna.

5:39 e.h.  
Blogger Ásdís sagði...

ég játa ... að núna þegar kreppan er skollin á ... þá bölva ég fyrir að hafa ekki keyft meira skemmtilegt á amazone og ebay... meðan krónan var svona skemmtilega sterk og allt var svo ódýrt í útlöndum...ja og að ég skildi ekki hafa hangið meira í útlöndum yfirleitt...

4:45 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim