sunnudagur, nóvember 09, 2008

Heyrðu mig Halla, hvað ert þú að bralla?

Ekki veit ég hvort síðasti póstur hafi náð að skapa fjöldahreyfingu, en Varríus er þakklátur meistara Agli fyrir að krækja á áskorunina um að allir axli sína ábyrgð.

Það er fullt í gangi í umræðunni. Vikulega birtast snjallir hagfræðingar hjá Agli með tillögur um patentlausnir. Sigrún Elsa Smáradóttir kom með athyglisverð rök fyrir frystingu verðtryggingar.

Engin merki eru um að neitt sé gert með þessar hugmyndir til eða frá.

Áðan var í Silfrinu gamall lærifaðir Varríusar, Vilhjálmur Árnason og var hreint frábær, eins og hans er von og vísa. Ef einhvern langar að sannfærast í eitt skipti fyrir öll um óréttlæti kvótakerfisins þá ætti viðkomandi að skreppa á netið og hlusta á Vilhjálm salla þá tilhögun niður.

Og ef einhvern langar ekki til að sannfærast um óréttlæti kvótakerfisins þá ættu velunnarar að teipa viðkomandi niður í lazyboyinn og súperglúa heddfóna á hausinn á honum og svo hann geti hlustað á Vilhjálm salla þá tilhögun niður.

Og svo ættu allir að bregða sér á blogg Höllu Gunnarsdóttu og lesa stórbrotið ljóð hennar, Kæri Björgólfur.

Eins og Björn Bjarnason, svo ég nefni nafn af handahófi úr þjóðskránni, hefur gert. Og gerir vitaskuld að umtalsefni á bloggi sínu. Og mislíkar klárlega.

Örugglega í fyrsta sinn sem blaðamenn á mogganum gera sig gildandi í þjóðmálaumræðunni. Og leyfa sér að yrkja ljóð.

Vonandi verður ekki framhald á þessum óskunda!

Annars er Björn með afbrigðum skarpskyggn þjóðfélagsrýnir. Daginn áður en Halla stígur á hans ljóðrænu líkþorn kemst hann t.d. að rótum óánægjunnar með upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum. Gefur Birni orðið:
Krafan um upplýsingamiðlun af hálfu stjórnvalda er hávær og mikil. Hún stafar meðal annars af því, að þjóðin treystir ekki einkareknum fjölmiðlum til að segja alla söguna - þeir eru allir í eignarhaldi, sem tengist bankahruninu á einn eða annan  hátt.
Leturbreytingar Varríusar
Og þar höfum við það. Einfeldningslegar skýringar á reiði almennings, eins og að yfirvöld tali hálfsannleik, snúi útúr og viti jafnvel ekki svörin, eru auðvitað húmbúkk við hliðina á hinni göfugu Baugsmiðlaskýringu.

Við erum greinilega í góðum höndum.

Og í tilefni af magnþrungnum sigri um helgina verður Halla Gunnars að deila sætinu sem Kona dagsins á Varríusi með puttakonunni ógurlegu:Ef einhver vill samsama sig henni og sjá fyrir sér einhvern annan en Giggs til að senda fingurinn þá gerir viðkomandi það á eigin ábyrgð. Hvorki ég né Björn viljum neitt af því vita.

1 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Já, Halla er snillingur. Og ég held að yfirvöld ættu að horfa fastar á Silfur Egils.

Á hverjum degi ætla ég að hætta að velta fyrir mér "ástandinu." En ég bara get mig ekki hamið. Einhver brjálaður pólitíkus og efnahagsástandsnörd þessa dagana.

En vonandi endar þetta alltsaman einhvernveginn einhverntíma og þá getur maður farið að huxa um eitthvað annað.

10:32 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim