fimmtudagur, júlí 10, 2008

Að lögleiða góða siðu

Það hefur verið vinsælt viðkvæði hægrisinnaðra andstæðinga aðgerða gegn klám- og vændisvæðingunni að ekki beri að framfylgja góðu siðferði með lögum. Viðhorf sem er gott og gilt, svo langt sem það nær.

Sem er reyndar ekki mjög langt, því færa má að því rök að stór hluti laga sé einmitt viðleitni til að banna ósiðlega hegðun og skilgreina viðurlög við henni. Verja eignarétt, líf og limi, tryggja möguleika minni máttar til að komast af. Allskyns mikilvæga hluti sem leiða af siðferðilegum gildum sem mannlegt samfélag hefur í hávegum.

Kannski er ástæðan fyrir þessum ruglingi hinna hægrisinnuðu varðhunda réttsins til ósiðsemi sú að þarna sé um að ræða muninn á siðferði og siðsemi. Auðvitað eru lög gegn manndrápum grundvölluð á siðferði, en þegar kemur að því sem mætti lýsa sem einberum dónaskap þá sé lögleiðing banns við slíku sambærilegt við að banna fólki að prumpa í heita pottinum eða blóta á almannafæri. Um þetta má svo auðvitað deila, en ég ætla ekkert að gera það hér. Gefum andstæðingum lögleiðingar mannasiða þetta.

En nú vill svo til að nýverið hafa komist í fjölmiðla skýlaus brot á lögum sem augljóslega banna dónaskap en brjóta ekki nein absólút siðalögmál. Framsóknarflokkurinn skrumskælir þjóðsönginn, Vodafone afskræmir þjóðfánann. Hvorttveggja bannað.

Þannig að nú bíðum við spennt eftir því að andstæðingar lögleiðingar góðra siða afnemi þessi ólög.

Og bara til að flækja málið vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög fylgjandi því að lögboðin bannhelgi á fána og þjóðsöng verði afnumin hið fyrsta, en jafnframt hlynntur því að kynlífsiðnaði séu settar þrengri skorður svo fremi það gæti dregið úr líkum á þeirri martröð sem kynlífsþrælkun og mansal hlýtur að vera.

Svona eru nú "vinstri" og "hægri" vanmáttug tæki til að lýsa þrívíðum heimi - og margvíðum hugmyndaheimi.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim