laugardagur, nóvember 25, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 6

Hér er svo smá laugardagsgróteska, og aftur er unnið með alþýðlegan menningararf.

ÚLFLJÓTUR
Ég ætla rétt að vona að þú kunnir að elda almennilegan mat. Það kunna allar skikkanlegar konur að elda. Uppáhalds-maturinn minn er Eyvindur í sparifötunum og einnig finnst mér Eyvindur með hor afbragð.

BERGÞÓRA
Já!?

ÚLFLJÓTUR
Þú kannt vonandi að matreiða hann.

BERGÞÓRA
Ja, við höfum aldrei haft slíka Eyvinda hér á prestssetrinu.

ÚLFLJÓTUR
Síðasta konan mín var snillingur í eldamennsku.

AUÐUR
Hefurðu átt margar konur?

ÚLFLJÓTUR
Fimm, en þær drápust allar. Þegar sú síðasta dó, ætlaði ég ekki að giftast aftur, en það er svo mikið vesen á þessum vinnukonum, alltaf að stinga af úr vistinni eða verða óléttar. Svo heimta þær kaup ofan í allt.

BERGÞÓRA
Úr hverju dóu konurnar þínar?

ÚLFLJÓTUR
Hinu og þessu. Ein dó úr hor, önnur úr verkjum, þriðja af barnsförum, ein varð úti og sú síðasta, já úr hverju dó hún aftur, ja, hún var alltaf eitthvað slöpp. Ég held það hafi bara verið leti í henni. Það var sama hvað ég barði hana áfram hún stóð aldrei í lappirnar.

PRESTUR
Leti er hvers manns hlekkur. Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki að fá að eta.

BERGÞÓRA
Barðirðu hana, fárveika?

ÚLFLJÓTUR
Ég barði þær allar, eins og harðfisk. Svo hræddi ég reglulega úr þeim líftóruna. (hlær) Ég setti á mig svarta hettu og kom svo aftan að þeim úti í fjósi, þar sem þær sátu við mjaltir. “Máninn líður, dauðinn ríður, sérðu ekki hvítan blett á hnakka mínum, Garún, Garún?” Þá ærðust þær alveg og hlupu inn í bæ. (hlær) Ráðskonan mín, þessi sem er að drepast, segir að ég verði að hætta þessum ólátum. En ég stenst ekki freistinguna.

BERGÞÓRA
En börnin þín, berðu þau líka?

ÚLFLJÓTUR
Ég á engin börn.

BERGÞÓRA
En ? ... Eignaðistu engin börn með öllum þessum konum?

ÚLFLJÓTUR
Einhverja hvolpa eignuðust þær, en þetta voru allt svoddans aumingjar og þær í engan stakk búnar til að sjá um þessi kvikindi svo ég seldi þau bara í skítverk. Nema þann rauðhærða, hann fór í beitu til franskra sjómanna.

BERGÞÓRA
SELDIRÐU ÞAU Í BEITU?

ÚLFLJÓTUR
Þeir vildu bara þann rauðhærða. Hitt var handónýtt hvort eð var. Varla kjöttægja utan á þeim. (Allir horfa á hann í forundran) Það var ekkert annað hægt að gera við þetta, sísvangt og grenjandi. Ég þoli ekki hávaða.


Undir hamrinum, Hildur Þórðardóttir 2002

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim