fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 4

Bundið mál hefur lengi fylgt félaginu. Söngtextar aðallega. Og svo ljóðleikurinn sem byrjar svona:

( Við erum stödd á eyðilegri heiði. Sólin er rétt ókomin upp, það er útlit fyrir rigningu. Stórgrýti og stöku tré. Hákon, greinilega drukkinn, reikar um heiðina. Hann stoppar við stórt tré. )

HÁKON
Kviddnin sem að á því - hérna - stendur
þá er ég núna obbulítið kenndur,
og segi (því að það er segin saga)
að sjússar eru oftastnær til baga.

Ekki þannig - ég á enga sök.
Að því hníga ei líkindi né rök,
en kannski er best að játa að þessi bobbi
byrjaði með raupi mínu og grobbi.

Ég þóttist geta grætt á gróðabraski
en gæfan reyndist völt
og hamingjan var hölt
og heiður minn og fjármál eru í vaski
út af vangoldnum vaski.

Ég held því að ég haski
mér héðan úr heimi
svo ég floppi ekki og flaski
meir á fjármagnsins streymi.

( Tekur fram reipi )

Ég get ekkert gert nema hengt minn haus
mitt haldreipi er eitt: Þetta reipi!
Ég er bæði gæfu- og glórulaus,
á „guðveiga-börnunum“ dreypi.

( Hann klárar úr flöskunni )

Þá er því lokið og skal ég því skrifa
mín skilaboð til þess að kveðja
og skýra hví lengur ég vil ekki lifa.
Hvar lét ég .... ? Ég þori að veðja

að í vasa var pappír og penni með meiru
ég passaði upp á það. Nei!
Ég klúðraði þessu eins og klúðraði’ eg fleiru
og kvatt get ég ekki, o svei.

En þei!
Hver laumast í myrkri?
Með röddu óstyrkri
hún ræðir við...

HALLA
( Full örvæntingar ) Drottinn, Guð minn!

HÁKON
Skyldi hún ætla?
það skyldi ég ætla
að hún ætli á fund við Guð sinn!

( Hákon felur sig á bak við tréð )

HALLA
Fyrr en morgungyðjan
glennir föla fingur
og greipar lætur sópa burtu stjörnum
og lítill ánamaðkur
undan steini stingur
staðnum þar sem höfuð er á börnum

og allir fuglar ákveða að kvaka
og allir fiskar ákveða að vaka
og vilja fara að synda eftir ám
og allar ýsur hætta að skera hrúta
og allir hrútar hætta að draga ýsur
og vilja fara að draga sig eftir ám

þá reika ég um Háholtið
og hugsa um allt bramboltið
sem brekabörnin breysku og beisku
brugga í skjóli nætur.
Já, gefið að því gætur
því ég var ein af þeim
og bíð þess aldrei bætur
að brjálað næturgeim
ég stundaði sem haldin væri
hundrað illum púkum.
Ég hélt ekki að mér lúkum
heldur drakk sem á því færi
best að komast í tæri

við graut sem er kenndur við „hræri“
við öll hugsanleg tækifæri.

Ég hélt víst að mér bæri
að halda uppi „Á T V R“,
því er nú andskotans ver.


Afturelding, Þórunn Guðmundsdóttir, 2002

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim