miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Vika hugleikskrar tungu - dagur 3

Varríus er svo sem hlutdrægur, en kannski náði bókmenntaparódía Hugleiks hámarki í Stútungasögu, þar sem fornsögurnar fengu yfirhalningu. Í þessu atriði eru siðferðisgildi fornaldarinnar sett fram af ekki minni manni en sjálfum höfundi Njálu:

ÓLÖF
(heldur áfram að skrifa Njálu) "... ok mun ek ríða heim aftr og fara hvergi. Ger þú eigi þann óvinafagnað, segir Kolskegg ... Kolskeggrrr" Oh, þessi samræmda stafsetning forn! (Atli kemur inn) Sæll sonur. Hví ert þú svo óyndislegur?

ATLI
Móðir mín, ég er ráðþrota.

ÓLÖF
Hvað amar að?

ATLI
Eins og þú veist hef ég átt fundi með Jófríði Ásgrímsdóttur. Við höfum lesið saman blóm og unnumst hugástum.

ÓLÖF
Satt er það, spurt hef ég samdrátt ykkar. Sjálf er ég fullsátt við þann ráðahag, en vita skaltu að faðir þinn verður þessu máli andsnúinn. Honum mun þykja sem þú takir niður fyrir þig.

ATLI
En nú er hlaupin snurða á þráðinn milli okkar Jófríðar.

ÓLÖF
Atli minn. Valt er vífs lund að trúa. Það tjóar lítt að gera sér það að grátsefni þó slettist upp á vinskapinn.

ATLI
Vinskapur okkar Jófríðar er samur. Snurðan er önnur.

ÓLÖF
Nú, hver er hún þá?

ATLI
Það er Þorbjörn Gíslason á Útistöðum sem er hlaupinn á milli okkar. Ásgrímur hyggst kaupa honum Jófríði.

ÓLÖF
Þar fór í verra.

ATLI
Hvernig fæ ég keppt við svo mikinn mann þegar ég nýt ekki fulltingis föður míns?

ÓLÖF
Hlýddu á mál mitt sonur. Nú áttu um tvo kostu að velja og hvorugan góðan. Þú getur látið kyrrt liggja, sætt þig við að verða af konunni, og lifað án hennar upp frá því. Að öðrum kosti getur þú skorað Þorbjörn á hólm og fallið með sæmd. Ég er raunsæiskona og veit að hann á allskostar við þig.

ATLI
Hvað á ég að gera? Hvað myndu hetjurnar í sögunum þínum gera?

ÓLÖF
Hetjur velja alltaf þann kostinn sem mest sæmd er af.

ATLI
Og í hvorum kostinum er meiri sæmd, móðir mín?

ÓLÖF
Skoraðu manngrýluna á hólm strákur. Þú gerir þá ekki annað en drepast.

ATLI
Satt segir þú. Líf mitt er hvort eð er ekki góður kostur án Jófríðar. Það væri sem öll blóm heimsins hefðu fölnað. Þá er betra að falla, og gera föður mínum einu sinni til geðs.

ÓLÖF
Eitt sinn skal hver deyja. En farðu nú og dundaðu þér eitthvað góði. Ég þarf að klára kaflann áður en blekið þornar í byttunni.

ATLI
Ég þakka þér góð ráð móðir mín. (fer)

ÓLÖF
Hvert var ég komin? "... segir Kolskeggr, að þú rjúfir sætt þína, því að mér mundi enginn maðr þat ætla. Ok máttu þat hugsa at allt mun fara sem Njáll hefr. sagt" Svei mér ef þetta verður ekki bara betra hjá mér en sagan af Bolla og Kjartani í fyrra.

Stútungasaga, Ármann Guðmundsson, Hjördís Hjartardóttir, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, 1993

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Dásamlegt leikrit, klárlega eitt af mínum uppáhalds. Til hamingju enn og aftur með hugleiksku upphefðina, kominn tími á þessa viðurkenningu. Knús úr norðri

12:13 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þegar ég les þennan texta þá hljómar Ólöf, það er bara þannig. Ég man ekki textann, en áherslurnar og framsögnina man ég. Gaman.

2:00 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim