mánudagur, nóvember 13, 2006

Olía á eldinn

Á sama tíma og "allir" eru sammála um að Frjálslyndi flokkurinn hefði betur ekki tjáð sig um innflytjendamál er gott að vita til þess að ábyrgir fjölmiðlar sýna stillingu og forðast að vera með lýðskrumskenndar fyrirsagnir um málið.

Þannig slær Fréttablaðið upp eftirfarandi fyrirsögn í dag:

"Meirihluti frjálslyndra segir útlendinga mikið vandamál."

Sem er trúlega dálítið rasísk og fordómafull afstaða.

En svo ef maður nennir að lesa greinina þá kemur í ljós að í könnuninni sem leiddi þetta í ljós var ekkert spurt um hvort útlendingar væru til vandræða. þar var hinsvegar spurt:

"Er fjöldi útlendinga á Íslandi ekkert, lítið eða mikið vandamál?"
Leturbreyting Varríusar

Þetta er svona álíka og ef ég segði að ég teldi það vera vandamál hve fáar konur sitja á Alþingi og blaðamaðurinn hefði slegið upp: "Varríus segir konur á alþingi vandamál"

Svona vinnubrögð, þar sem umdeild afstaða er skrumskæld og afflutt á áberandi hátt mun vafalaust stuðla að málefnalegri og hreinskiptinni umræðu um þetta viðkvæma mál.

1 Ummæli:

Blogger Eyja sagði...

Ef eitthvað er þá mættu konur á þingi vera meira vandamál. Ég vil endilega sjá fleiri konur inni á þingi með uppsteyt og vesen, ekki veitir af.

10:37 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim