föstudagur, október 27, 2006

Leikárið

Dæmalaust hef ég lítið skrifað um leikhús hér undanfarið. Hef reyndar lítið sem ekkert séð annað en það sem mogginn hefur sent mig á. Þarf að taka mér tak ef ekki á að missast af allskyns viðburðum sem ég vil gjarnan sjá.

En það er kannski best, þó seint sé, að snara fram einhverjum skoðunum á því sem er á matseðli vetrarins. Til hvers er best að hlakka?

Kvíðablandin eftirvænting lýsir afstöðu minni til enduruppfærslu Dags Vonar. Þetta var eitt fyrsta leikrit sem ég sá "fyrir sunnan" eins og suðvesturhornið hét í þá daga. Það var mikil upplifun. En hvernig hefur það elst? Mun aftur takast að gera hið nær-melódramatíska efni þannig úr garði að það detti ekki yfir línuna og verði pínlega hjákátlegt?

Mig hefur lengi langað að sjá hinar stórmerkilegu Bakkynjur Evripídesar, sem er eina dæmið um klassískt verk á efnisskrám leikhúsanna. Vona að efasemdir mínar um það ráðslag að fá útlendinga í jafn "verbal" verkefni reynist vera fordómar og bull.

Pleasure Islands heitir dularfullt verk á verkefnaskrá Þjóðleikhússins sem vekur forvitni mína. Það gerist á Íslandi, er eftir sænskt leikskáld og samkvæmt heimasíðu hans er þetta heimsfrumsýning. Sem er einstakt, eða í það minnsta óvenjulegt, þó svo Þjóðleikhúsið sé af alkunnri hógværð ekkert að flíka því.

Og hvernig er hægt annað en að hlakka til að sjá söngleik eftir Hugleik Dagsson?

Anthony Neilson virðist vera orðinn Jim Cartwright Krúttkynslóðarinnar. Tvö verk búin, Ritskoðarinn og Penetreitor, og Borgarleikhúsið boðar tvö til viðbótar, Fagra veröld og Lík í óskilum. Það er í sjálfu sér forvitnilegt. Og Neilson er eini höfundurinn af hinum svokallaða In-Yer-Face skóla sem nær hér einhverri fótfestu. Hofgyðjan Sara Kane ósýnd enn.

Mér þykir samt verkefnaskrá LA heilt yfir flottust. Af henni eru tvö verk á Mest-Spennandi listanum.

Það er skynsamlegt af LA-mönnum að kalla The Lieutenant of Inishmore Svartan kött. Enda breytir það engu um þá dæmalausu snilld, þar sem Martin "Koddamaðurinn" McDonagh fer sínum flugbeittu fingrum um öfgasinnaða hryðjuverkamenn.

Og LA á líka áhugaverðasta nýja íslenska verkið. Þorvaldur Þorsteinsson fer ekki að klikka á "gamals aldri" er það nokkuð?

Svo hlakka ég mikið til að sjá Cymbeline. Þetta skrítna og fáséða elliglapaverk Shakespeares verður í Þjóðleikhúsinu í vor í uppfærslu einhvers nafntogaðasta frjálsa leikhóps Breta, Cheek by Jowl. Og mögulega verð ég þá líka búinn að sjá það í uppfærslu Kneehigh-hópsins, en þau fengu það verkefni að sviðsetja stykkið fyrir Royal Shakespeare Company og fengu köflótta dóma fyrir. En sem Demented Fan er mér alveg sama og stefni á leikhúsferð.

Það hefur lítið upp á sig að hlakka til sýninga frjálsra leikhópa, svo hverful eru loforð þeirra um sýningar. Þar kennir margra grasa. Hafnarfjarðarleikhúsið ætlar að sviðsetja Draumaland Andra Snæs, Ólafur Haukur er að skrifa um Janis Joplin og Elvar Logi og Pétur Eggerz ætla að gera vestfirskum skrímslum skil. Svo er Eyfi okkar að syngja í óperuversjón af hinni mögnuðu sögu H.C. Andersen, Skugganum.

Allavega - síðasti séns á Systur í kvöld, fer sjálfur á hr. Kolbert á laugardag.

5 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

"heimsfrumsýning" - Hvað er það?

3:27 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Þegar leikrit er frumflutt, þ.e. frumsýnt í fyrsta sinn.

4:55 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

dæmalaust ertu bara að skrifa lítið þessa dagana... svona yfirhöfuð.

10:43 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

... allt að koma ...

11:18 f.h.  
Blogger Thorleifur Örn Arnarsson sagði...

Sæll og bless

kíkti á þig eftir langa þögn. Sé að ekki einvörðungu er hið þögla blogg mitt horfið heldur minnistu ekki á komandi sýningu Lifandi Leikhússins á Eilífri Hamingju í Borgarleikhúsinu eftir undirritaðan og Andra snæ Magnasson. humm.... og fjallar um ímynd og markaðslífið (eitthvað sem þú ættir að kannast við)
Bestu kv, Þorleifur

1:48 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim