mánudagur, október 23, 2006

Eru þau súr?

Ætlaði að skrifa langan hund um njósnir, en svo kom hádegisfrétt sem gerði mig pirraðan. Örugglega samsæri undan rifjum Björns Bjarnasonar.

RÚV tilkynnti ábúðarmikið að sex tonn af vínberjum væru étin endurgjaldslaus af óprúttnum viðskiptavinum Hagkaups á Akureyri. Og það lá í loftinu og viðhorfi fréttaþularins að þetta væri hin mesta ósvinna.

Nú versla ég talsvert í Hagkaupum. Reyndar ekki á Akureyri, en samt. Og í Nóatúni, þar sem sama "vandamál" er vafalaust líka til staðar.

Og ef einhver er duglegur gæti hann vafalaust líka reiknað út hvað mörgum tonnum af Icebergsalati, gulrótum, sellerístönglum og fleira grænmeti er hent af viðskiptavinum eftir að heim er komið vegna þess að það er gulnað, sölnað, rotnað og skemmt, en samt selt fullu kílóverði í þessum sömu búðum. Og í framhaldinu gætum við sett í rétt samhengi væl verslunarstjórans yfir því að fólk vilji smakka vínberin áður en þau eru keypt á því sem virtur smásagnahöfundur hér í bæ kallar okurverð.

Kannski myndi útvarpinu líka þykja þetta fréttnæmt.

1 Ummæli:

Blogger Kristín sagði...

Og sömu fréttamenn mættu skoða verðmerkingarnar ef virkilega á að fara að skoða hver er glæponinn. Þær eru hneisa á Íslandi.

3:13 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim