laugardagur, júní 17, 2006

"Fólkið er frjótt - og landið ekki ljótt"

Þannig lauk Ósk Vilhjálmsdóttir ræðu sinni á þjóðhátíðarfundi Framtíðarlandsins, félags um framtíð Íslands í Austurbæ núna í hádeginu. Þetta var góður fundur, stappað af fólki og mikil stemming.

Fyrir utan alla viskuna sem drýpur af hverju snjallyrði í Draumalandi Andra Snæs þá er hans stærsta gjöf til þjóðmálaumræðunnar sú tóntegund jákvæðni, bjartsýni og kjarks sem hann hefur módúlerað raddir andstöðu við stóriðjustefnuna í. Þessi andi sveif svo sannarlega yfir vötnum á fundinum, þó föstum gagnrýniskotum væri vissulega skotið líka.

Öllum mæltist vel. Fundarstjórarnir María Ellingsen og Margrét Vilhjálmsdóttir voru skörulegar, Ósk var flott, Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur talaði af myndugleik vísindamannsins og hafði fyrir vikið hálfu sterkari tilfinningaleg áhrif með mynd sinni af áhrifum stórvirkjana. Reynir Harðarson talaði vitaskuld eins og sá sem valdið og vitið hefur eftir sigurför hugvitsins hjá CCP hefur gefið dæmi um hvernig má skapa verðmæti án þess að kreista þau út úr náttúrunni. "Við eigum að framleiða gæði en ekki magn" sagði hann og rifjaðist þá upp fyrir mér að eina fyrirtækið á Íslandi sem fullvinnur ál, Alpan í Þorlákshöfn, hefur nú flutt starfsemi sína til Austur-Evrópu.

Slagverkmennirnir slógu flottan tón í upphafi og Guðný og Gunnar spiluðu unaðslega.

Ég á enn eftir að yfirstíga tregðu mína til að ganga til liðs við pólitísk samtök, þó þverpólitísk séu (hvað sem það þýðir). En hvet alla sem ekki eru jafnmiklar pólitískar pempíur til að skrá sig.

Mótsagnarkenndur? Sú mí.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim