fimmtudagur, janúar 19, 2006

Úr bransanum

Það gengur talsvert á í íslenskri leiklistargagnrýni þessa dagana.

Stærstu tíðindin eru sennilega þau að einhver nafntogaðasti leikdómandi síðari ára, Súsanna Svavarsdóttir, virðist snúin aftur og farin að skrifa í Fréttablaðið. Það eru góð tíðindi, enda skeleggur og tæpitungulaus rýnir sem veit hvað henni líkar og líkar ekki. Vek sérstaka athygli á grein hennar um Mind©amp sem virðist hafa náð betur til hennar en annarra sem um hafa ritað, að Varríusi meðtöldum. Gott mál.

Annar liðsauki með meira nýjabrumsbragði er svo Helga Vala Helgadóttir sem segir Jónatan Garðarssyni kost og löst á leiksýningum í Kastljósinu. Hún debúteraði á mánudaginn (minnir mig) með umfjöllun um Carmen og Eldhús eftir máli. Formið hefur ekki skánað mikið frá því blóðrauð slátrunarsól Jóns hneig til Viðar - enginn tími til greiningar og allt verður frekar sleggjulegt, sérstaklega þegar sýningar lukkast ekki eins og virðist með Carmen. En Helga Vala komst klakklítið frá þessu og er greinilega ekkert feiminn við að tala hug sinn, þrátt fyrir arftekna innmúrun sína í leikhúsheiminn.

Vafalaust er hægt að nálgast myndskeið með dómum Helgu Völu á vef Rúv.

Silja Aðalsteins heldur áfram sínum skrifum sem birtast að ég held í Viðskiptablaðinu (þessu bleika) en dúkka allajafnan líka upp á vef Tímarits Máls og Menningar. Hér eru Eldhús eftir máli og Túskildingsóperan undir. Silja er góður rýnir sem gaman er að lesa, býr að langri leikhúsreynslu og yfirgripsmikilli menningarþekkingu. Blaðið sem hún ritstýrir er líka nauðsynlegt að lesa.

Á Kistunni birtast líka stundum dómar, eða "hriflur" eins og það er kallað þar (gott orð). Núna blasa þar við hriflur um Carmen og Glæp gegn diskóinu.

þess má líka geta að Varríus er loxins búinn að uppfæra leikdómasíðuna sína.

Svo verður gaman að sjá hvort hinn nýorðni ritstjóri Páll Baldvin heldur áfram sínum gamla starfa meðfram. Vonandi.

1 Ummæli:

Blogger Thorleifur Örn Arnarsson sagði...

Sæll og bless

Hvað segja menn þá?

Hvaða dag birtist grein um MindKamp í fréttablaðinu? Langar að kíkja á það en nenni ekki að downloada allri vikunni og leita í gegn í því óhentuga formi sem þar er að finna.

Bestu Berlínarkv.

Þorleiufur

12:18 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim