laugardagur, janúar 21, 2006

Hjónabandið enn

Steinunn Jóhannesdóttir, húsmóðir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar andæfir hún hugmyndum um jafnstöðu samkynhneigðra varðandi trúarlega blessun og víxlu sambanda þeirra.

Steinunn er í miklum metum hjá Varríusi, og líklega er það þessvegna sem orð hennar koma svona við mig. Og krefjast svara.

Fúlastur er ég samt út af upphafsorðum hennar;

"Sigursteinn Másson, formaður öryrkjabandalagsins*, predikaði í Fríkirkjunni..."

Fyrirgefðu Steinunn, en var hann að predika sem formaður Öryrkjabandalagsins? Hefur það starf hans eittthvað með það að gera að hann er baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra?

Er samkynhneigð örorka?

Er kannski "sniðugt" að minna fólk á að maðurinn er "geðveikur" og því mögulega ómarktækur?

Ég kann því illa þegar fólk sem ég met mikils grípur til jafnómerkilegra mælskubragða. Þessvegna greip ég til þeirra sjálfur í upphafi greinarinnar. En að efninu:

Steinunn svarar ekki, frekar en aðrir, augljósum aðfinnslum við röksemdir Þjóðkirkjunnar um málið. Hún skýrir ekki hversvegna frumvarp sem leyfir eitthvað þvingar einhvern til einhvers.

Þess í stað færir hún rök fyrir því að hjónaband sé í eðli sínu samfélag karls og konu, sérstaklega til komið til að mynda nothæfan ramma utan um "æxlunarhlutverk" svoleiðis tvenndar.

Gott og vel. En af hverju leyfist þá ófrjóum að giftast í kirkju? Af hverju fá gamalmenni víxlu? Af hverju er það ekki skýlaus krafa kirkjunnar að fólk bæði geti og ætli að eignast börn áður en yfir því er messað?

Sorrí Steinunn - dugir ekki.

Steinunn reynir síðan að styðja mál sitt með biblíutilvitnun. Það eru mistök, enda bókin sú hálli en áll þegar verja á málstaði - jafnvel þá sem standa hjarta kirkjunnar jafn nálægt og þessi.

Hún dregur sumsé fram ritningarorðin sem lesin eru yfir fólki sem vill gifstast, úr nítjánda kafla Mattheusarguðspjalls:
Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.
Það er síðan merkilegt að ólíkt bókstafstrúarmönnum þá viðurkennir Steinunn það sem blasir við - að greinin þessi fjallar ekkert um hverjir mega giftast, heldur um skyldur þeirra sem það gera - að ekki megi skilja að ástæðulausu. Kannski bara alls ekki, því í næstu setningu kemur:
Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.


Fólk sem neitar að skilja þessa setningu bókstaflegum skilningi getur augljóslega ekki rökstutt eitt né neitt með tilvísun í bókstafinn.

Hjónabandið er sumsé "til varnar konum og börnum". Kvöð á kallana til að þeir standi sína plikt.

Gott og vel - og hvað með það? Breytist það við trúarlega blessun samkynja sambanda? Hvernig þá?

Og ef það er allt í lagi með að samkynhneigð pör geti gert "ástarsambönd sín opinber og fá þau lögvernduð" án kirkjulegrar blessunar, eru þá borgaralegar víxlur karls og konu sem því nemur verr til þess fallnar að vernda hagsmuni kvenna og barna?

Lög eiga að gilda jafnt fyrir alla. Þau eiga ekki að gera trúfélögum kleyft að ástunda misrétti. Trúfélög eiga að hafa rétt til að ástunda misrétti, en það á ekki að vera í skjóli laga.

Samkynhneigðir eiga að hafa rétt til að fá sömu trúarlega blessun sambanda sinna og gagnkynhneigðir hjá þeim trúfélögum sem treysta sér til þess. Löggjöfin á að kveða á um það.** Og það er ekki mál sem á að bera undir "hjón", eins og Steinunn heldur fram.

Ekki frekar en það átti að fara fram skoðanakönnun í Bandaríkjunum um árið meðal hvítra um hvort ætti að veita svörtu fólki frelsi.

Frelsi þeirra skerti ekki frelsi hinna hvítu.

Hjónaband samkynhneigðra skaðar ekki hjónaband gagnkynhneigðra - og kemur þeim þar af leiðandi ekki við.

Nema hjónaband hafi bara gildi í einhverjum "elítískum" skilningi, svona svipað og að vera meðlinum í Frímúrararreglunni. Það gengisfellur vitaskuld ef allskyns rakkarapakk fær að vera með.

En er hjónabandið svoleiðis?

*tilvitnun leiðrétt eftir ábendingu.
** hér var ég óskýr og villandi - hef umorðað setninguna eftir ábendingu þarum

6 Ummæli:

Blogger Ásta sagði...

Stundum læðist að mér sá ljóti grunur til sé fólk sem hafi ekkert áorkað í þessu lífi annað en að álpast í hjónaband. Og eins og allir aðrir hálfvitar með blússandi minnimáttarkennd er ekkert gaman nema til sé hópur af fólki sem fær ekki að vera með. Minnir mig á asnana sem agnúast út í litað fólk einfaldlega af því að það slysaði til að fæðast hvítt.

12:12 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Já ÞAR er ég þér sammála kæri Varríus og það gleður mig!!
Bolvíkingar ganga einu skrefi lengra en þjóðkirkjan og meina öllu ógiftu fólki aðgang að helsta highlightinu í bolsévísku skemmtanalífi, sumsé þorrablóti þeirra. Fráskildir fá ekki aðgang. Bara ekkjur og ekklar og svo sambúðarfólk. Veit ekki hvurnig færi ef samkynhneigt par sækti um inngöngu á blótið? Sennilega fengi það ekki inngöngu þar sem karl og kona skulu sitja gegnt hvort öðru í borðhaldinu... Eða þá að leggja yrði blótið niður í vandræðaganginum.....
Æi, ég veit það ekki. Mér finnst bara að allir eigi að eiga sama rétt. Barnalegt kannski? en samt. Mér finnst það.
Ylfa A.K.A. ylzrnqjak

5:21 e.h.  
Blogger Þórunn Gréta sagði...

Heyr, heyr... Ég las einmitt þessa grein og þótti afar sorgleg frá a-ö...

9:11 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég rak augun í þessa grein og var hissa á að slíkt kæmi frá jafnréttisforkólfinum Steinunni. Það er greinilega ekki sama jafnrétti og jafnrétti, eða öllu heldur kvenréttindi og jafnrétti. Og ekki gott til þess að vita að dálítið forpokuð trúarviðhorf skuli þvælast fyrir jafnréttinu jafnvel á ólíklegustu stöðum.

Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að það hafi verið viljaverk hjá henni eða bein ætlan að tengja saman örorku og samkynhneigð (eða ýja að geðsýki) með þessum hætti – fremur hugsunarleysi, eða misskilin kurteisi að láta starfsheiti viðkomandi fylgja. Þetta er jú hinn formlegi embættistitill Sigursteins, ég held hann beri ekki titil hjá samtökum samkynhneigðra er það? Samhengisins vegna hefði auðvitað farið betur á að sleppa titlinum, og hennar vegna ætla ég rétt að vona að ofurglöggur textarýnirinn hafi oftúlkað inngang hennar viljandi í reiðihamnum.

3:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég held að þessi grein þín kæri Varríus ætti að fara víðar en á þitt ágæta blogg, þarna er vel að orði komist og allt sem ég hefði viljað sagt hafa en gerði ekki. Sammála er ég þó Sævari með að þetta er líklega frekar misskilin kurteisi en að verið sé að íja að því að samkynhneigð sé örorka.

Halla

11:49 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Samkynhneigðir eiga að hafa rétt til að fá sömu trúarlega blessun sambanda sinna og gagnkynhneigðir hjá þeim trúfélögum sem treysta sér til þess.

Er þér alvara? Á ríkið að skylda trúfélög til að blessa eitthvað?

Ertu kannski að ruglast á því að vígja einhvern til hjónabands og að blessa eitthvað?

10:19 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim