miðvikudagur, janúar 18, 2006

Golíat að baki Davíðs

Skilur einhver röksemdir Þjóðkirkjunnar gegn lagafrumvarpi Guðrúnar Ögmundsdóttur?

Er "röksemdir" kannski ekki rétta orðið?

Eftir því sem best verður skilið finnst kirkjunni að ef lögum verður breytt á þann veg að trúfélög (Þjóðkirkjan og önnur) megi gefa saman fólk af sama kyni þá sé verið að þvinga þau til að gera það.

Þetta er svo augljós rökleysa að það er varla hægt að andmæla því án þess að gefa jafnframt í skyn að sá sem heldur því fram sé illilega skyni skroppinn. Kannski er það þessvegna sem fjölmiðlungar sem tala um þetta við málsvara Þjóðkirkjunnar ganga svona linkulega fram.

Eða eiga þjóðkirkjumenn kannski við að lagabreytingin myndi þvinga trúfélög (þjóðkirkjuna og önnur) til að komast að niðurstöðu um afstöðu sína til málsins?

Þetta er á hinn bóginn svo hárrétt og sjálfsagt að það er eiginlega bara banalt - auðvitað hefðu "Guðrúnarlögin" þessi áhrif. Það sem er óskiljanlegt er af hverju það er slæmt.

Lengi hefur ríkt það óviðunandi ástand að ríkið hefur skýlt sér bak við að hjónavíxlumál séu mál kirkjunnar (sem er rangt) og kirkjan bak við að lög heimili henni ekki að gefa saman samkynja pör.

Frumvarp hinnar knáu hugleikskonu sprengir þennan gagnkvæma skinhelgiskjólvegg hræsninnar í loft upp, svo báðir standa eftir berstrípaðir. Og eins og sæmir er kirkjan sýnu spéhræddari.

Hún hefur tekið þann lítilmannlega kost að skýla sér bak við að mörg trúfélög geti ekki kenninga sinna vegna gefið saman samkynhneigða.

Og hvað með það?

Til eru þeir sem halda því fram að þjóðkirkjan sjálf geti aldrei gefið samkynja fólk saman, það stríði gegn trúnni. Þá það. Kirkjan verður sjálf að finna út úr því. Ásatrúarmenn vilja fá að gefa saman samkynja fólk. Á kirkjan að meina þeim það?

Að sjá vora voldugu Þjóðkirkju skýla sér bak við smæstu trúfélög landsins í röklegri nekt sinni er ekki sérlega fögur sjón.

2 Ummæli:

Blogger Ásta sagði...

Mnjleeu!

(það ku vera "amen" á bloggísku)

1:46 e.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Mér finnst að ef menn ætla ekki að fara að leyfa giftingar samkynhneigðra eigi umsvifalaust að banna humarát.

Skv. góðu bókinni ku það tvennt vera jafnilla séð.

yrccnuj

2:13 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim