fimmtudagur, júní 24, 2010

Toppmenn og sport

Þorsteinn Joð vill meina að hann sé með besta hugsanlega liðið til að fjalla um leikina á HM, og þarafleiðandi sé tómt mál að væla yfir skorti á konum í hópnum.

Þetta er auðvitað umdeilanlegt. Fyrir það fyrsta hvort til sé einhver pottþéttur mælikvarði á fullkomleika fótboltasérfræðinga. Það er reyndar ekkert umdeilanlegt, auðvitað er hann ekki til.

Og þó við gefum Þorsteini það að hans smekkur á hvað séu hinir fullkomnu álitsgjafar sé næsta óskeikull, þá má samt gagnrýna og spyrja. Finnst honum t.d. í alvöru nauðsynlegur þessi ljóshærði geðvondi? Þessi sem elskar enska liðið og talar um það eins og eitt af "stóru liðunum" (sem bendir reyndar til að hann sé dómgreindarskertur og horfi aukinheldur ekki á keppnina með opnum augum). Þessi sami gaur getur ekki tekið sér í munn heiti "minni" liða nema með það sem á ensku heitir "sneer" á vörum sér og ég man í svipinn ekki hvaða íslenskt orð lýsir.

Hinir þrír eru alveg fínir. En ég man eftir keppni (síðasta HM eða síðasta EM) þar sem Þorsteinn var einmitt með útskiptingar í hópnum og oft með sniðuga vinkla. Minnist þess ekki að það hafi komið niður á ánægju minni með þá keppni, þvert á móti reyndar.

Þetta eru svosem engin eldflaugavísindi. Og þó ég sé enginn sparkspesíalisti þá læt ég enga sérfræðinga segja mér hvað mér á að finnast. Ekki frekar en ég leyfi ókunnugum gúrúum að stýra því hvaða tónlist mér finnst skemmtileg.

Fleiri og fjölbreyttari álitsgjafar af öllum kynjum, aldri og afstöðu væru fyrir minn smekk betra sjónvarspefni. Fjölbreyttari og óvæntari sjónarhorn væru held ég dýrmætari heldur en einhver ímynduð fullkomnun. Og ef viskustandardinn lækkaði eitthvað (sem er umdeilanlegt) þá held ég að það komi ekki að sök.

Þetta er þrátt fyrir allt bara fótbolti.

1 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Mér finnst "fótboltaspeki" reyndar alltaf frekar kjánaleg. Reyndar oft alveg kjánahrollsvekjandi þegar menn fara að spá og spekúlera.

Ofboðslega lítið hægt að segja utan: Þessir skoruðu fleiri mörg, svo þeir unnu. Fótbrutu reyndar einn, ekki neitt siðferðisprik fyrir það.

Fær mann til að velta fyrir sér hvort stjörnumerkjaviðmið franska þjálfarans séu endilega út í hött...

(Blogger er óvenjuviðeigandi og segir "fratia")

7:33 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim