sunnudagur, júlí 30, 2006

Rós án þyrna

Sigur Rós er náttúrulega nokkuð magnað fyrirbæri, algerlega sannir og sannfærandi í sinni seigfljótandi sérvisku, með fullkomið vald á sínum þrönga hljóðheimi og merkilega litríkir og fjölbreyttir innan marka hans.

En þetta er ekki mín mússík.

Og þó það væri sérlega magnað að sjá Klambratúnið fullt af fólki í kvöldblíðunni þá voru tvö lög nóg fyrir mig, og of freistandi hvað var stutt heim.

En kvöldið er fagurt - ætli það sé ekki best að tylla sér út á svalir með kvöldbjórinn og góða bók og láta sér að öðru leyti nægja breimið í Jónsa í fjarskanum í bland við vélarslátt þyrlunnar sem sveimar yfir, mögulega til að vinna gegn hópdáleiðslunni.

5 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Sammála, gafst upp í fjórða lagi. Var þá búinn að heyra bæði hæga og hraða kaflann hjá þeim nógu oft. Gat þó ekki annað en dáðst að líflegri sviðsframkomu piltanna og einstaklega góðum tengslum við áhorfendur...

11:07 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Það verður samt að viðurkenna að þeir framleiða frábæran hávaða þegar þeir detta í þann gírinn. Lokapunktur tónleikanna er til vitnis um það og er leitt fyrir ykkur pilta að missa af þeim gjörningi.

2:29 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég hef svipaða sögu að segja. Ég naut þess í botn að ganga um og horfa á veðrið og grasið og fólkið og fallega sumarstemninguna og þennan aldeilis frábæra en vannýtta tónleikastað, allt sveipað dulúð og dáleiðandi tónum snillinganna ... í tvö lög. Þá lallaði ég yfir götuna og inn til mín aftur. Ég myndi ekki þekkja þessi tvö lög aftur, né í sundur, hvað þá frá öllum hinum sem ég heyrði í sjónvarpinu og út um gluggann þegar hljóðið brast í ónýtu sjónvarpstækinu. Þegar ég dottaði dreymdi mig að ég væri að synda um í grindhvalavöðu á fengitímanum. Það er eitthvað nístandi fallegt við þennan hljóðheim, en hann er of einangraður, langdreginn og tilbreytingarlaus til að mín eyru gangist við honum nema í takmarkaða stund.

1:07 f.h.  
Blogger Ásta sagði...

Þetta er heldur ekki minn tebolli. Þó fannst mér þeir vera alveg ágætir undir lokin þegar kominn var virkilegur kraftur í tónlistina og ég gat legið á teppinu mínu á miðju Klambratúni og fundið hljóðbylgjurnar hríslast um mig í gegnum jörðina.

8:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Sævar, þú ert þó ekki „einan-graður“ þessa dagana?

11:40 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim