mánudagur, febrúar 27, 2006

Út í buskann

Fór á Öskubusku í gærkveldi. Hef lengi haft þá skoðun að mér þætti Rossini skemmtilegur. Það reyndist vera rangt. Mússíkin er snotur á algerlega óeftirminnilegan hátt, söngflúrið yfirgengilegt og einhver köld gerfimennska einkennir allt saman. Svolítið merkilegt að heyra tónlist standa í vegi fyrir tilfinningatúlkun fremur en að styðja hana og dýpka. Merkilegt, en ekki að sama skapi ánægjulegt.

Svo er verkið alveg ótrúlega ódramatískt, klaufalega uppbyggt og laaaaangdregið.

Leikstjórnarvinnan eins og alltof oft í óperunni fyrir neðan allar hellur. Einna helst að það væri réttur fílingur í kórnum, nett trúðskt attitjúd þar. Bergþór líka á réttri línu í sínu sprelli, þó hann tefli á köflum á tæpasta vað í senustuldi.

En af hverju var grunnhuxunin í sýningunni eins og þetta væri raunsæisleikrit? Af hverju var köflum sem klárlega er ætlað að beinast að áhorfendum undantekningalaust beint að öðrum persónum á sviðinu? Til dæmis þegar prinsinn og Öskubuska hittast fyrst og syngja svo langan dúett um líðan sína. Af hverju beindu þau þeim orðum hvort til annars þegar þau eru að syngja um hvort annað? Það var klárlega miðlægt í túlkun leikstjórans að rjúfa ekki fjórða vegginn - tók á sig súrrelískar myndir á köflum eins og þegar Öskubuska situr ein á sviðinu og syngur, og snýr hálfpartinn baki í okkur og syngur út í loftið.

Fyrir minn hatt ber þetta vott um grundvallarmisskilning á hvernig svona verki verður best skilað til áhorfenda. Og ég hef rétt fyrir mér.

En það voru líka alvarlegar brotalamir í persónuleikstjórninni.

Af hverju var Sesselju ekki bent á að það hjálpar ekki framvindunni eða spennunni í verkinu að leika status 10 á móti systrum sínum og stjúpa? Og hversvegna var restinni af leikurunum ekki bent á að þó prinsinn sé vissulega alþýðlegur gaur þá hefur HANN status 10? Hvað ætli hafi farið mikið fynd forgörðum af því að ekkert er gert með það að þjónn prinsins leikur prinsinn allan fyrri hlutann, en er svo aftur orðinn þjónn?

Hversvegna var aldrei eins og nein persónan væri að hlusta á hinar?

Af hverju var enginn samleikur (nema hjá kórnum)?

Og svo náttúrulega þessi klassíska aðfinnsla:

AF HVERJU í A....OTANUM ER VERIÐ AÐ LEIKA Á ÍTÖLSKU!!!!?

4 Ummæli:

Blogger Þorbjörn sagði...

Þú hefur Rossini fyrir rangri sök í upphafi greinarinnar. Það er greinilega ekki honum að kenna hvernig þessi sýning er. Ég ætla að skella mér næsta föstudag og tékkáessu.

kwadl-a kvarta? spyr bloggerinn...

6:20 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ó! Hvað ég er sammála ÖLLU sem þú segir um leikstjórnina og leikinn.

9:01 e.h.  
Blogger Ásdís sagði...

hvað áttu við með status 10 ??

1:08 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Hvað áttu við með "hvað áttu við með status 10?"?

Ef þú meinar hvað átt er við með status á leiksviði þá vísar það til myndugleika, sjálfsöryggis og þessháttar eiginleika. Bæði er talað um "innri status" sem vísar í hvernig persónan sjálf upplifir sig og "ytri status" sem táknar það hvernig aðrir koma fram við hana.

Birtingarmyndir þessa eru svo auðvitað margvíslegar.

Status er gjarnan mældur með kvarða frá 1-10

Ef þú meinar hvað ég eigi við með að Öskubuska hafi háan status þá upplifði ég afstöðu hennar til systranna og stjúpans þannig. Hýðin en ekki hrædd eða undirgefin, heldur full af innra öryggi og viss um að þau væru pakk.

Og þetta fannst mér ekki gott.

1:15 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim