föstudagur, desember 23, 2005

Songuðsól

Í menntaskóla var ég í bekk og vinfengi við stúlku sem varð alveg steinhissa þegar einhver benti henni á möguleikann á að jólasveinninn í Ég sá mömmu kyssa... hafi í raun verið pabbinn í dulargerfi. Hún hafði alltaf talið að þarna væri stórfellt framhjáhald í fullum gangi.

Jólalög hafa að sjálfsögðu ekki farið varhlutann af því að börn skilji textana ekki alveg rétt og læri þá fyrir vikið vitlaust. Heims um ból á vafalaust metið í þessu, en þó má vafalaust færa rök fyrir því að flestar villurnar séu til bóta á því hnoði. Eins komst ég að því eitt sumar sem ég safnaði sögum af misheyrðum textum að línan "Þyrnigerðið hóf sig hátt" í jólatrésskemmtunarsöngnum góðkunna var til í svo mörgum versjónum að nægt hefði í heilt jólaball.

Önnur hlið á söngtextamálum jólanna eru svo hinar svívirðilegu tilraunir til að dauðhreinsa ljóð sem særa einhvern. Hið unaðslega og dularfulla kvæði um hina þrammandi og stafveifandi innipúka, húðstrýkjandi móður þeirra og könnuna á stólnum ætti að friða og helst setja á heimsminjaskrá svo fólk hætti að reyna að "laga" það.

Og svo heyrði ég einhverntíman að á vorum femínísku tímum væri ekki lengur hægt að syngja:
Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna
heldur væri búið að jafna í pökkunum með:
hann fékk bók og hún fékk ekkert minna
Fyrir nú utan vanmetakenndina sem skín úr "bragarbótinni" þá er þetta eitthvað svo... æ ég veit það ekki.

Þegar kvæðamannafélag Varríusar heyrði af þessu þá stakk það strax upp á annarri lausn:
Hann fékk bók en hún fékk bók um Tinna
sem er bæði skemmtilegt, gengur gegn staðalímyndunum á mun róttækari hátt og er auk þess til hagsbóta fyrir fjölskyldufyrirtæki eins af uppáhaldsmönnum Varríusar.

En svo lengist lærið sem lífið og rétt í þessu komst ég að því að ég hef skilið eitt af uppáhaldsjólalögunum mínum kolröngum skilningi frá upphafi. Og allt út af einni kommu.

Hið góðkunna enska jólalag

God Rest You Merry Gentlemen

sem ég hef alltaf talið að gæti útlaxt

Guð hafi hemil á ykkur kátu herramenn

heitir sumsé

God Rest You Merry, Gentlemen

Sem sem best gæti útlaxt sem:

Verið óhræddir, góðu herrar

enda talar hér einmitt engillinn sem birtist hirðunum og boðaði þeim fögnuðinn. Og skyndilega er gott lag orðið betra.

Sjálfur orti Varríus einn jólasálm á árinu. Hann er sunginn í Jólaævintýrinu og það eru einmitt fjárhirðarnir sem hafa orðið. Til að fyrirbyggja að hann skolist til í stopulu kvæðaminni landsmanna birtist hann hér:
Í davíðs borg er drengur nýr
reifaður en vænn og hýr
Var í jötu lagður lágt
og liggur þar og á svo bágt

Hann færir okkur frelsi gott
fæðu og drykk, já þurrt og vott.
Blóm í haga, betri tíð
birtu í myrkri, skjól í hríð

Við höldum saman heim til hans
einkasonar skaparans
Beina leið til Betlehem
til barnsins litla nú ég kem
Á þeim nótum óskar Varríus lesendum sínum nær og fjær gleðilegra jóla.

12 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Mér sýnist þetta ekki alveg rétt hjá þér, til að stuðlar og höfuðstafir séu réttir hlýtur þetta að eiga að vera:

Í davíðs borg er drengur nýr
deifaður en vænn og hýr

Var líka að velta fyrir mér hvort þetta fyrsta erindi fjallaði um bága stöðu samkynheigðra innan hinnar kristnu kirkju? Eða eins og kommentkerfið segir, eecut

2:52 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

sem tilbiður guð Sigurgeir

Jólakveðja að norðan
Jói Kr.

6:57 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég er tuttuguogeins og er nú loks að átta mig á þessu með mömmu og jólapabbann. Hélt alltaf að hann væri bara sofandi.

Takk fyrir þetta Toggi og gleðileg jólin.

8:02 e.h.  
Blogger fangor sagði...

gleðileg jól til þín og þinnar ektaspúsu, megi henni hlotnast heilsa um jólin og ykkur báðum almenn gæfa og gjörvigleikar.

vifix!

11:20 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Kæri TOggi, gleðileg jól sömuleiðis. Ég var nú einmitt orðin vel fullorðin þegar ég áttaði mig á þessu með jólasveininn og framhjáhaldið. Næstum jafngömul og Fríða þegar hún fattaði þetta með hrafninn og reðinn....
Ég segi eins og tóta, jólin eru skrítin. Já eða bara cbfgun, eins og blogger útleggur það!

11:51 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Zorionak eta urte berri on!

12:43 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Loxins skilur maður hvaða mál blogger talar!

xgxrrqjt!

11:21 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

dylijbya og farsælt komandi ár allir saman, eins og Blogger vill kalla það.

Loftur S.

9:33 e.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Er einmitt búin að flissa yfir bæði gleðihangikjöti Helgu Möller, hátíðarjólum Siggu Beinteins og Heims um bólinu eins og það leggur sig fyrir þessi jólin. Fátt kjánalegra en mörg jólalög.

Gleðileg jól og ophupod

4:59 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

mamma er ein í eldhúsinu eitthvað að fá sér mat söng ein lítil vinkona mín á meðan hún beið eftir Vörusleiki

7:40 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta voru jólin sem ég uppgötvaði að "á mínum jólakortum bið" er ekki sneið til Íslandspósts fyrir að bera jólakortin út seint og illa ...

And a pcpdrwvy to ye all!

bg.

9:15 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég hef einmitt verið að hlæja að gleðihangikjötinu undanfarin ár og var búinn að komast að því að það er reykt í glaðlofti. EN ... horfði svo á Það var lagið um jólin og sá hvítt á svörtu, að þarna liggur misskilningur; þarna er á ferð greni, en ekki gleði.

Í stofunni er allt svo hreint / á réttum stað ei neitt / ryksugan á gólfinu / brátt skal húsið skreytt. / Hver staður á sinn eigin ilm / greni, hangikjöt ...

Þar fór það!

En maður dauðahaldi í jólaleg jól þeirra Svanhildar og Önnu Mjallar.

P.S. Á bloggísku heitir jólakötturinn ybzdciza!

1:26 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim