mánudagur, október 10, 2005

Biohazard

Ég sá ekkert á kvikmyndahátíð að þessu sinni. Fékk boðsmiða á Strings frá öðlingnum Bernd en þegar við Hulda mættum var uppselt og ekki hægt að fá aukamiða. Svo við fórum heim. Komst ekki á laugardagskvöld vegna tónsmíða sem komnar voru í eindaga. Afraksturinn var æfður í dag og ég er á því að þetta hafi verið góð býtti.

Ég er ekki með samviskubit yfir að fara ekki í í bíó. Reyndar fer ég næstum aldrei í bíó. Ég hef ekki áhuga á kvikmyndum. Gagnvart þeim er ég eins og "almennur leikhússgestur" í leikhúsinu. Það þarf eitthvað sérstakt til að drífa hann af stað, og þegar þangað er komið vill hann bara láta hafa ofan af fyrir sér. Hrífa sig. Honum gæti ekki verið meira sama um tækni, stíl, túlkun eða þvíumlíkt, hvað þá hégóma eins og prófgráður leikaranna. Hann situr bara þarna og hugsar: "Skemmtiði mér helvítin ykkar!"

Þannig huxa ég um bíó. Ég hef gaman af bíómyndum ef þær virka. Mér er skítsama hvernig. Ég hef engan áhuga á hvernig þær eru búnar til eða hvaða brellum er beitt í það og það skiptið til að hafa þau áhrif sem þær hafa.

Og fátt pirrar mig meira en fólk sem heldur að leikhús sé einhverskonar lotec kvikmyndir, og leikarar séu því betri sem þeir komast nær því að vera eins og Marlon Brando í On the Waterfront. Sennilega leynist einhversstaðar bíónörd sem er álíka innanbrjósts gagnvart fávitum eins og mér.

Og debet og kredit veraldarinnar stemmir þvísemnæst...

Fór á leiksýningu í kvöld í embættiserindum. Nigel Watson sagði gamlar welskar skröksögur í Norræna húsinu. Dómur birtist væntanlega á þriðjudag, en ef þetta prógramm verður endurtekið þá myndi ég mæla með að fólk drifi sig.

Og þá meina ég allir sem hafa áhuga á að láta hafa áhrif á sig.

Líka bíónirðir.

3 Ummæli:

Blogger Gummi Erlings sagði...

Brando kallinn, það var nú samt alveg ágætis ofleikari. Hann var alveg húkkt á því að nota hluti í kring sér til aðstoðar í leiknum. Takið eftir því næst þegar þið horfið á Brando, hann er sífellt að fikta í einhverju.

Og orð færslunnar er "sbnug". Kannast lesendur við orðið "sbnug"?

11:40 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Kannast ekki við það, en held það sé stytting á „sárbeinug“. Reyndu t.d. að lesa orðið sem ég fékk:

„knrsqt“

Þori að veðja að þú varst að enda við að segja „konurassgat“.

11:14 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Sko!

Held ég sé búinn að fatta dulmálið. Chrvl var næsta orð. Augljóslega stytting á Chevrolet. Sýnist að hér sé komið efni í öndvegis samkvæmi-sleik. Allir að finna hvað orðið þeirra stendur fyrir. Á einverjum tímapunkti (sem Varríus eða nýráðið lárviðarskáld hans finnur upp) búum við svo til ljóð eða sögu þar sem öll þessi orð verða að koma fyrir.

Díll?

11:19 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim