föstudagur, mars 05, 2010

Við sem heima sitjum

Ég ætla ekki að kjósa á morgun. Til þess er merking niðurstöðunnar of óljós, of mikið af spunarokkum tilbúinn að lesa sér hentuga merkingu í tölurnar. Ég neita að taka þátt í því. Ég veit reyndar að einhver mun reyna að túlka fjölda þeirra sem heima sátu sem skilaboð sínum málstað til framdráttar, en ég get ekkert gert að því. Það er enginn fullkominn felustaður í lýðræðinu.

Umræðan um Icesave er það dapurlegasta sem sést hefur. Hún heldur áfram og áfram, en enn hefur ekki tekist að afgreiða út af borðinu nokkurt einasta ágreiningsmál sem að þeim snúa. Það er enn verið að rífast um það sama og deilt var um í upphafi.

Og ennþá nota allir sem taka þátt í umræðunni - pólitíkusar, álitsgjafar, bloggarar og athugasemdasmiðir - orð eins og "auðvitað" um hvaðeina sem deilt er um. Ennþá leyfa allir sér að segja "við" og meina Íslendinga, eins og við séum á einu máli - sammála síðasta ræðumanni.

En við erum ekki sammála um neitt. Við erum ekki sammála um forsendur, ekki sammála um strategíu, ekki sammála um markmið. Ekki sammála um staðreyndir málsins.

Og að sjálfsögðu erum við ekki sammála um merkingu atkvæðagreiðslunnar. En ótrúlega margir vita hvað ÞEIR meina með atkvæði sínu - og lifa í barnslegu trausti þess að sú merking komist til skila.

Ekki ég - ég ætla að eyða deginum í Hálfvitagang - og ykkur er velkomið að leggja hvaða merkingu sem er í það.

9 Ummæli:

Blogger Kalli Hr. sagði...

Ég tek undir þetta, kvíði meira "túlkun" niðurstaðnanna frekar en niðurstöðunum sjálfum og framhaldi málsins. Það verður ekki hlustandi á fréttir fyrir snillingum sem teygja og toga í allar áttir sem henta sínum málstað. Það liggur við að maður vonist eftir eldgosi á heppilegum tíma til að fylla fréttatímana í staðinn.

Þú ert frábær penni Toggi, skrifaðu mikið og oft!

10:17 f.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Ég ætla að deila með þér nýjasta fésbókarstatusnum mínum, hvort sem þér líkar betur eður ver:

Sigga Lára Sigurjónsdóttir hefur ákveðið að taka sömu afstöðu til afleiðinga þjóðaratkvæðagreiðslu, eða ekki, og lífs eftir dauðann, eða ekki. Bíða bara og sjá hvað setur. Eða ekki.

10:52 f.h.  
Blogger Unknown sagði...

Það mætti þó gjarnan halda því til haga að það er líka fjöldi fólks sem ætlar að greiða atkvæði án þess að það geri sér einhverjar sérstakar grillur um gegnsæja merkingu þess eða að um sé að ræða einhverja gapandi "Áfram Ísland!"-fáráðlinga. Það að einhver komist að annarri niðurstöðu en maður sjálfur þarf jú ekki endilega að vera merki um skort á íhugun, en það finnst mér því miður gefið í skyn í "sitjum heima"-málflutningi margra.

3:31 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég get ekki fengið af mér að sitja heima. Ekki kýs ég nei. Ekki get ég kosið já í stöðunni. Ég fer en mun skila auðu. Ljóti pakkinn atarna!

4:09 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

6:04 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Eyja: Meining fólks með atkvæði sínu er held ég alltaf nokkuð skýr. Ef ég segði "nei" væri ég klárlega að segja "nei, ég samþykki ekki þessi lög því okkur bjóðast nú þegar betri kjör". Öll teikn eru hinsvegar á lofti að áframíslandfáráðlingarnir myndu eigna sér það nei.

"Já" er augljóslega glórulaust.

Að skila auðu kemur alveg til greina - en mig langar bara ekki að taka þátt í þessum sirkus.

Auðvitað mun vel gert fólk segja bæði já, nei og skila auðu í þessum kosningum. Að vel athuguðu máli.

Málið vandast þegar aðrir byrja að lesa í úrslitin. Þá verður merkingin til.

Ég ætla að sitja heima (eða reyndar í Hveragerði) að vel athuguðu máli.

6:17 e.h.  
Blogger Unknown sagði...

Mig langar ekki heldur til að vera sirkusdýr en mér finnst líka verið að spila með mig þegar forsætisráðherra hvetur mig til að sitja heima. Þ.e.a.s. ég sé enga leið til að vera laus, hvort sem ég fer og kýs eða ekki. Þess vegna finnst mér skásti kosturinn að fara bara og kjósa samkvæmt minni sannfæringu: mér sýnist margt út á þennan samning að setja og því segi ég nei við honum, svona fyrst ég er spurð. Ég treysti því svo sem ekkert að kominn sé skárri samningur, það hefur ekkert verið samþykkt enn í þeim efnum.

7:06 e.h.  
Anonymous Bensi sagði...

Viltu sem sagt að lögin frá 30.
desember verði fest í gildi?
Trú því ekki; - held að einhver hafi platað þig - - eða þú ruglar saman afstöðu til einstaklinga og málflutnings - - og sjáir ekki hvar ábyrgð okkar liggur.
Auðvitað nýtum við þátttökumöguleikann og greiðum atkvæði - - og fellum lögin úr gildi. (ÓRG er aukaatriði í málinu . . )

6:33 e.h.  
Blogger Unknown sagði...

Forsætisráðherra hvatti engan til að sitja heima, þvert á móti ítrekaði hún að allir ættu að fara eftir eigin sannfæringu og að það mundi hún sjálf gera.
Og eins og engan gat grunað þá hefur stjórnarandstaðan nú strax eftir fyrstu tölur lagt fram fyrstu túlkun: íslendingar neita að greiða Icesave.
Erum við ekki öll hissa?

11:32 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim