laugardagur, mars 06, 2010

Enginn veit til angurs fyrr en reynir

Það var gaman að vera í Aratungu í gærkveldi. þar sýndi Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna Undir Hamrinum eftir Hugleikarann Hildi Þórðardóttur fyrir pakkfullu húsi af fólki sem kunni svo sannarlega að meta það sem fyrir þá var boðið.

Enda engin ástæða til annars. Þessu Póst-módern melódrama Hildar leið vel í klassísku vaðmáls-baðstofu-umgjörðinni sem Gunnar Björn leikstjóri og samverkamenn hans höfðu búið því. Leikendur höfðu stílinn fullkomlega á valdi sínu og grótesk sveitalífsmyndin varð ljóslifandi. Hæfilega agaður kraftur einkenndi framgang hópsins, og svo var hlaupið útundan sér á strategískum augnablikum sem enn jók á gleðina.

Afbragðs sýning - takk fyrir mig.

Hamarinn er eitt víðsýndasta íslenska leikrit síðari ára. Reykjavík - Viljandi - Mónakó - Lipetsk - Schelyekhovo - Aratunga. Hvarvetna tekið með kostum og kynjum. Enda framúrskarandi dæmi um frjóa og frumlega (og svolítið klikkaða) úrvinnslu á íslenskum menningararfi.

Hér má sjá tóndæmi úr sýningu Hugleiks, tekið upp í leikhúsi Grace Prinsessu í Furstadæminu Mónakó.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim