laugardagur, febrúar 27, 2010

Fást

Faust í gær. Það var áhugavert. Auðvitað fullt af skemmtilegu sprikli og flottir effektar í byrjun. Vesturport sko. En andskotinn…

Byrjum þar. Andskotinn. Hvað á það að þýða að láta þennan flinka leikara, Hilmi Snæ Guðnason hvorki meira né minna, byggja túlkun sína á að beygja sig í mjöðmunum, styðja sig við staf og bæta nokkrum rykkornum og svona eins og heiltóni niður á við, við röddina sem hann notaði í Salieri í Amadeus um árið? Til að leika djöfulinn. Og hverjum þótti góð hugmyndin um að Djöfullinn væri pönkari af þeirri blóðlausu gerð sem leikhúsfólk, sem sumthvert er reyndar gamlir pönkarar, einatt trommar upp með þegar svoleiðis fólk á að sjást?

Pönkið er dautt, krakkar. 20 ár síðan. Er Djöfullinn sumsé passé? Búningum og gerfum sýningarinnar er undantekningalaust hrósað í birtum leikdómum. Það skil ég ekki. Leikmyndin er meinlaus - og andlaus. Búningarnir hlutlausir og, þegar þeir eiga að vera afgerandi, andlausir.

Frammistöðu og túlkun Hilmis Snæs á Mefistófeles er erfitt að höndla. Virkaði á mig svolítið eins og hann væri tólf ára að leika í senum úr gullna hliðinu hjá hugmyndaríkum kennara. Og það vekur óneitanlega athygli þegar maður les dóm Jóns Viðars að hann eyðir plássi í að mæra Róbert Arnfinnson í hlutverkinu fyrir 30 árum en engu á Hilmi. Öðruvísi mér áður brá.

Aðrir leikarar eiga ekki teljandi betri dag. Enginn nær að gera nokkuð sem kemur á óvart og gleður. Nína Björk* er í skúffunni með sinn skrattakoll og Björn Hlynur er algerlega óskilgreindur skratti. Og þegar hann tekur við sem Faust þá kristallast grunnvandi leikgerðarinnar.

Hvað vill Faust?

Í þjóðsögunni og þeim leikgerðum sem þekktastar eru (Marlowe og Goethe) er Faust vísindamaður/heimspekingur sem dreymir um þekkingu, völd, allt.

Í Vesturportsleikgerðinni fáum við ellilífeyrisþegann Jóhann, sem eitt sinn var leikari.

Leikari. Af hverju í andskotanum ekki vísindamaður? Núna á okkar öld þar sem vísindamenn hafa heiminn í hendi sér. Hausinn út úr naflanum leikhúsfólk!

Af hverju ekki endurskoðandi? Eða kannski lögga sem dreymdi um að verða dómsmálaráðherra?

Nei, leikari sem dreymir um að … leika Faust. Eða réttara sagt, saknar þess pínulítið að hafa aldrei leikið hann.

Hversu lítið púður er hægt að komast af með til að skjóta öllum þessum fimleikamönnum á loft?

Jú annars, ástin, Jóhann er pínulítið skotinn í Margréti hjúkrunarkonu og hún í honum. Ambisjónin er góðu heilli ekki meiri en þetta. Og sem betur fer þá breytir skrattinn honum í ungan mann svo við þurfum ekki að horfa upp á eitthvað intergenerational-ógeð. Svo Þorsteinn og Björn Hlynur skipta um hlutverk. Sem gerir ekkert fyrir samúð okkar með persónunni (sem Þorsteinn Gunnarsson var satt að segja að standa sig ágætlega með að vinna sér inn).

Sýningin hverfist algerlega um löngun Jóhanns/Fausts í Grétu. Engu að síður er tilboð/freisting Mefistós að Faust fái nokkurnvegin allt sem hann vill. En af því að Jóhann er lífsþreyttur, níhílískur, bitur leikari en ekki ástríðufullur gullgerðarmaður/vísindamaður eins og hefðin segir þá langar hann svosem ekki í neitt. Nema jú, sæta hjúkkan er … sæt. Verst að bróðir hennar er blanda af standard hugsunarlausum/sadistískum stofnanaumsjónarmönnum úr Gaukshreiðrinu og svoleiðis, og nítjándualdar ofstopafullum púrítönskum þverhausabræðrum úr … æ þið vitið.

Öll heimsins trampólín megna ekki að koma þessari flatneskju á flug.

* Nína Dögg heitir hún víst, takk fyrir ábendinguna Sæbz

6 Ummæli:

Blogger Sigga Lára sagði...

Andskotinn!

Og ég sem ætlaði ekki að nenna að sjá þessa sýningu.
Af nennuleysi þess sem aldrei nennir að sjá sýningar (eða bíómyndir, ef út í það er farið) sem "allir" segja að séu "æðislegar".

Þá er það farið. ;)

11:15 f.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Sjitt.
Kóreubúarnir hafa fundið þig.
Og þeir segja sex!

Bakköppa bloggið!

8:51 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hvað er betra en Kínverji sem segir fimm?
Jú ... ok ... þið eruð sennilega með þetta.

SS

10:06 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Segi eins og Sigga ... ætlaði svosem að sjá, en hlakka meira til núna með þetta veganesti. ;)

Eitt nafnabrengl hjá þér. Nína Dögg en ekki Björk. Það er víst önnur Nína. ;)

ss

10:33 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Segi eins og Sigga ... ætlaði svosem að sjá þetta, en hlakka meira til núna með þetta veganesti.

Eitt nafnabrengl hjá þér. Nína Dögg en ekki Björk. Það er víst allt önnur Nína. ;)

ss

10:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég sakna þín úr opinberu leikhúsgagnrýninni Varríus. Var einmitt að hugsa þetta um daginn og þessi skrif staðfesta söknuð. Kv. INdra

10:59 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim