þriðjudagur, júlí 22, 2008

Blindsker

Einu sinni var ég í leikritahöfundasmiðju. Oft reyndar, en í þessari tilteknu smiðju var maður sem setti afgerandi svip á umræður um verk félaga sinna. Hann stundaði það að hvessa sín skarpskyggnu greiningargleraugu á smáatriðin og leggja til að þau yrðu gerð að aðalatriðum. T.d. með því að benda á að aukapersónurnar væru svo áhugaverðar að þær ættu að fá stóraukið pláss, eða að einhver lykkja í plottinu yrði gerð að burðarvirki verksins.

Í hnotskurn: "Þetta er gott hjá þér, en væri ekki betra ef þú hefðir skrifað eitthvað allt annað leikrit?"

Stundum var þetta ábyggilega rétt hjá honum. En fyrst og fremst er þetta auðvitað allsendis ófrjó nálgun. Hjálpar engum. Kemur umræðunni ekkert áfram. Blindgata. Blindsker.

Bubbi Morthens segir að orku annarra listamanna væri betur varið í eitthvað annað en viðkomandi kjósa. Það er nú alldeilis fróðlegt. Og gagnlegt fyrir umræðuna.

Síst.

Nú gæti Varríus áreiðanlega bent Bubba Morthens á svona tíu hluti sem hann ætti ekki að gera/segja, sem myndi gera hann að geðslegri listamanni/persónu í augum Varríusar.

En það er blindsker. Bubbi gerir og segir það sem hann vill. Ég leiði það hjá mér. Stilli mig um að leggja til að hann geri eitthvað allt annað. Kaupi ekki plöturnar, mæti ekki á tónleikana. Slekk á útvarpinu.

Báðir sáttir.

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Eins og talað beint frá mínu hjarta.

Ég verð mjög mikið fyrir því sjálf að fólk segi mér hvernig ég eigi að reka fyrirtækið mitt og þá einkum fólk sem aldrei hefur komið nálægt rekstri. Iðulega er mér sagt hvað ég eigi að birta á blogginu mínu og hvað ekki og sterkastar skoðnanir á því hafa þeir sem sjálfir blogga aðallega um mat og sumarbústaðaferðir. Eigi sjaldnar en daglega er mér sagt hvernig ég eigi að koma pólitískum skoðunum mínum á framfæri og sér í lagi er það fólk sem aldrei hefur sagt skoðun sína opinberlega sem er svona mikið með það á hreinu.

7:56 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim