laugardagur, janúar 05, 2008

Móðg

As Lavinia, Miss Vivien Leigh recieves the news that she is about to be ravished on her husband's corpse with little more than the mild annoyance of one who would have preferred foam rubber
Kenneth Tynan í dómi um Títus Andróníkus árið 1955


Fyrir nokkrum árum hætti Þjóðleikhúsið að senda Sjónvarpinu frumsýningarmiða fyrir gagnrýnanda Dagsljóss, Jón Viðar Jónsson. Ástæðan voru ummæli Jóns um frammistöðu Jóhanns Sigurðarsonar í uppfærslu Rimas Tuminas á Don Juan sem Jón lýsti sem dópista út úr heiminum eða eitthvað álíka. Nú var þetta harla góð lýsing á því sem fyrir augu bar í sýningunni, en Stefán Baldursson kaus (væntanlega með nokkrum erfiðismunum fyrir svo textanæman mann) að skilja þetta sem aðför að mannorði leikarans og úthýsti Jóni.

Ef einhver kom illa út úr þessu máli þá var það Stefán og leikhúsið.

Nú fer Guðjón Pedersen i rosabullurnar og sparkar þessum sama rýni af boðslista leikhússins, en reyndar fyrir öðruvísi sakir. Honum þykja ummæli gagnrýnandans vera aðför að áhorfendum hússins. Í viðtali í mogganum í dag stillir Guðjón þessu eiginlega upp í snyrtilega rökhendu:
Jón Viðar segir að það sé nálykt af starfsemi Borgarleikhússins

Áhorfendur eru fleiri en nokkru sinni

Jóni Viðari þykja áhorfendur vera fífl (eða allavega með skert menningarlegt lyktarskyn)

QED
Það er erfitt að trúa þvi að Guðjón meini þetta. Þykir honum að gagnrýnendur eigi að miða umsagnir sínar um árangur leikhúsa við aðsóknartölur, og ef þeir geri það ekki þá séu þeir að móðga áhorfendurna sem kunna ekki gott (eða vont) að meta? Gildir það þá kannski líka um einstakar sýningar? Hvert leiðir þessi makalausa vitleysa?

Allavega er ljóst að enginn kemur illa út úr þessu fjaðrafoki nema Guðjón og leikhúsið.

Nú vill svo til að í greininni sem Guðjón vitnar til fellir Jón nokkuð óvægna dóma um leikhússtjóratíð Guðjóns. Mögulega eru þeir ekki alveg sanngjarnir. Þetta hefur að sönnu ekki verið blómaskeið Guðjóns sem leikstjóra, í svipinn man ég bara eftir einni sem var klárlega framúrskarandi, Púntila og Matta. Ég skrifaði að mér sýnist bara einu sinni dóm um leikstjórnarverkefni hans, um frekar dapra túlkun hans á þunglamalegri leikgerð Búlgakovs á Don Kíkóta. Á hinn bóginn var margt vel gert og spennandi i Borgarleikhúsinu 2000-2007. Og ekki nema sanngjarnt að horft sé til þess þegar árangur leikhússtjórans er metinn:

Starfið á Nýja sviðinu 2001-2003 (sirka). Alvöru tilraun til að búa til "Ensamble" sem skilaði ótrúlega mörgum af bestu sýningum tímabilsins: Fyrst er að fæðast, Jón og Hólmfríður, And Björk of Course, Maðurinn sem..., Sumarævintýri.

Rómeó og Júlía, sýning Vesturports getur staðið sem fremst i flokki margra ágætra samstarfsverkefna.

Chicago - einhver besta söngleikjauppsetning íslensk sem ég hef séð.

Öndvegiskonur - gargandi snilld.

Margt hefur klárlega verið slappt, og vel má vera að komin sé þreyta. En Jón Viðar hefur löngum haft gagnrýnið horn í síðu Guðjóns sem leikhússmanns, og það er áreiðanlega frekar eymslin undan því sem hefur kveikt hjá leikhússtjóranum fráfarandi þessi fýlulegu viðbrögð en samúð með áhorfendum.

1 Ummæli:

Blogger Gummi Erlings sagði...

Jájá, það er hálftilgangslaust að móðgast út í Jón Viðar. Annars skaltu tékka á þessu. Og svo smella hér og lesa áfram og sjá hvernig þeim hefur gengið. Skemmtilegur lesningur.

10:18 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim