föstudagur, nóvember 17, 2006

Verðlaunin

Ef íslensk tunga er matjurtagarður er Hugleikur gaurinn sem sker dónalegar myndir út úr gulrófunum og býður svo upp á dýrindis salat úr arfanum.

Já við fengum viðurkenningu í gær, á degi Íslenskrar tungu, á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, sem við höfum reyndar fengið ákúrur fyrir að skrumskæla og skopstæla. Heldur betur viðeigandi, verð ég að segja.

Ég er alveg rígmontinn af þessu. Það er gaman þegar einhver tekur óumbeðið eftir því sem verið er að gera, skilur það og metur. Það er ástand sem of sjaldan ríkir í hjörtum áhugaleikarans.

Og svo er auðvitað ansi sætt að finnast við vera vel að þessu komin.

Höfundastarfið, úrvinnslan úr menningararfinum, hagyrðingarnir, útúrsnúðarnir. Allir hinir hnífskörpu flytjendur sem skila bullinu fram yfir sviðsbrúnina.

Varríus er Hugleiksaðdáandi og hyxt fagna þessari viðurkenningu með viðeigandi hætti. Næstu viku munu birtast textabrot úr hinum ýmsu Hugleiksverkum. Gáfuleg, heimskuleg, fáránleg, fyndin, alvarleg, í bundnu máli og óbundnu. Eina viðmiðið er að mér þyki þau skemmtileg í víðustu merkingu þess orðs. Höfundar verða ekki spurðir álits, en eru beðnir að senda mér línu ef þeir vilja allsekki eiga textabút í dæmasafninu.

Það er viðeigandi að þjófstarta þessu verkefni núna með bút úr Bónorðsförinni. Er þetta litla eintal gott eða vont? það er ekki gott að segja. Er það vísvitandi eða óvart fyndið? Enginn veit. Hinu held ég að megi færa gild rök að - að það er áhrifaríkara um þróun hins hugleikska stíls en almennt er viðurkennt.

Guðný:
(Stendur við stofugluggann, og horfir á eptir Halldóri) Vesalings Halldór. Þú elskar mig, og jeg elska þig. Þú ert vel að þjer og efnilegur maður – en þú ert fátækur. Þú elskar mig, og þó verður þú að fara í burtu fá mjer. Fátæktin þín skilur á milli okkar. Jeg er rík, eða það lítur út fyrir að jeg verði rík – jeg elska þig – en má þó ekki gjöra það, nema svo enginn viti. Grimmur er sá, sem meinar mjer það, auðurinn minn og fátæktin þín. – Halldór minn, nú fer þú burt, en þú fer með mig með þjer í huga þínum; þú fer með elskuna til mín. Nær ætl' þú komir aptur? – mjer er nóg, að þú elskar mig. – Fátæktin þín er sterk, og sterk eru ógnunarorð foreldranna, en þó er elskan sem við elskumst, enn sterkari. – Hún er hrein – jeg elska þig, af því jeg virði þig, og mannkosti þína og vænleik – og sú fagra elska, sem sprottin er af virðingu fyrir því fagra og góða, hlýtur fyr eða síðar að sigra allt annað. – Vertu sæll, Halldór minn; guð og hamingjan fylgi þjer. Hana nú, þar hverfurðu mér hinu meginn við ásinn. – Vertu alltjend sæll –
Og mundu eptir mjer
sem man þig alla daga
og unnir einum þjer.
Einni anntu mjer
alla þína daga.
Einum ann jeg þjer
alla mína daga.
(Hún sezt niður, og fera að lesa í bók, sem liggur á borðinu).

Bónorðsförin, Magnús Grímsson, 1852

2 Ummæli:

Blogger Eyja sagði...

Ég óska þér og öðru hugleiknu fólki til hamingju með þetta. Er það bara ég eða var fréttaumfjöllunin Moggans um þetta snargötótt? Þar var frétt um að Njörður P. Njarðvík hefði fengið Jónasarverðlaunin, bæði á forsíðu og á miðopnu, og fyrir neðan á miðopnunni var svo viðtal við fyrrum skólabróður minn úr MH þar sem lesa mátti milli línanna að Hugleikur hefði fengið einhverja viðurkenningu en það var held ég alveg örugglega hvergi sagt berum orðum. Nema lesskilningi mínum og athyglisgáfu sé farið að hraka, sem er auðvitað ekki útilokað.

9:44 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Það er alltaf einn sem fær hin eiginlegu Jónasarverðlaun og það var NPN í þetta skiptið. Hins vegar fá nokkrir aðilar sérstaka viðurkenningu menntamálaráðherra í hvert sinn og Hugleikur var þeirra á meðal. Leiðréttið mig ef ég fer rangt með.

10:05 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim