mánudagur, janúar 23, 2006

SA Marziert

Merkustu niðurstöður könnunar Samtaka Atvinnulífsins á viðhorfum til virkjana, stóriðju og umhverfismála er að 61% landsmanna telur við hæfi að svara óljósum, leiðandi, tvíræðum og illa orðuðum spurningum um brýnasta deilumál samtímans með jái eða neii.

Kæru lesendur. þegar þið lendið í skoðanakannanaúrtaki vill varríus frændi ráðleggja ykkur tvær leiðir:

a) ljúga - því meira villandi sem upplýsingar í skoðanakönnunum eru því fyrr missa þær trúverðugleika sinn.

Og ef spurningarnar eru svo óljósar að þið getið ekk skrökvað, eða hafið ekki brjóst í ykkur til að segja ósatt:

b) neita að svara.

Umfram allt ekki láta leiða ykkur í að gegna já eða nei við spurningum á borð við þessa:
Telur þú að hægt sé að sætta sjónarmið umhverfisverndar og virkjunar vatnsafls?
Hvað í ósköpunum þýðir þetta? Hvaða sjónarmið hefur "virkjun vatnsafls"? Þýðir þetta að mögulega útiloki "sjónarmið umhverfisverndar" ekki allar vatnsaflsvirkjanir í veröldinni?

Hver myndi þá svara þessu neitandi?

Og takið eftir hvernig niðurstöðurnar eru túlkaðar. Gefum Samtökum Atvinnulífsins orðið:
"Við töldum okkur vita að það væri nokkuð breiður stuðningur við þessa stefnu sem hér hefur verið rekin, það er að segja, að nýta þessar endurnýjanlegu orkulindir að því gefnu að það sé gert í ágætri sátt við umhverfið hverju sinni, ... Það þarf að finna eitthvert jafnvægi á því hversu mikið rask við viljum að verði gert á íslenskri náttúru. Það þarf alls ekki að vera mikið í öllum tilfellum."
Sumsé, þeir sem slysuðust til að viðurkenna að það væri hægt að sætta sjónarmið umhverfis og virkjana eru alltíeinu búnir að lýsa yfir stuðningi við "þessa stefnu sem hér hefur verið rekin".

Og hvað þýðir að telja að raforku- og álfyrirtæki á Íslandi "standi vel að umhverfismálum"? Þýðir það að fólk haldi að þau valdi engum umhverfisspjöllum?Eða telja aðspurðir að fyrirtækin geri heiðarlega tilraun til að bæta fyrir og jafnvel fyrirbyggja þann hluta skaðans sem þau valda sem ekki er algerlega óhjákvæmilegur? Að Landsvirkjun sé dugleg að planta trjám og það sé aldrei rusl á hinni svissnesku lóð í Straumsvík?

Meðan báðir möguleikarnir eru opnir munu kaupendur könnunarinnar túlka hana eins og þeim sýnist. Þeir hafa þegar lýst yfir ánægju sinn með "hve ímynd orku- og álfyrirtækjanna sé jákvæð í umhverfismálum."

Hvernig stafar maður aftur "nytsamur sakleysingi"?

Heimildir: Vefur Samtaka atvinnulífsins og Morgunblaðið í dag.

1 Ummæli:

Blogger Þorbjörn sagði...

Mér finnst verst að fyrirtækið Gallup skuli leggja nafn sitt við þessa "könnun". Þeir hafa á stundum sett upp heilagan vandlætingarsvip þegar einhver vogar sér að setja út á aðferðafræðina.
Í þessu dæmi er aðferðafræðin fokin út í veður og vind.
Þetta staðfestir hin fleygu orð að allt er falt ef rétta verðið er boðið.

12:10 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim