föstudagur, nóvember 16, 2007

Dagurinn

Viðbrögð við hátíðardagskrá Sjónvarpsins

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það er bein útsending úr musteri Íslenskrar tungu, gegnt alþjóðahúsinu

Það er dagur íslenskrar tungu...
og ég skil ekki alveg hvenær hann breyttist í svona nakta sjálfshátíð ráðandi stéttar á Íslandi. Kannski hefur hann alltaf verið svona.

Það er dagur íslenskrar tungu...
Og það er aðkallandi að finna gott íslenskt orð yfir það sem á ensku er kallað establishment, orð sem er kannski ekki alveg jafn gegnsætt og þau sem við notum núna.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og The establishment er nógu smekklaus til að finnast Matthías Johannessen vera góður kostur í ræðumann kvöldsins. Lesa sennilega ekki Þráinn Bertelsson.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og söngvararnir nenna ekki að læra textann sinn. Nema náttúrulega kórarnir. Fólkið sem fær borgað lætur það eiga sig.

Það er dagur íslenskrar tungu...
Og Gunnar Eyjólfsson er óumdeildur meistari í að fara með bundið mál. Hrein unun. Sumt af hinu er þvi miður alger raun. Leikarar eiga það illu heilli til að finnast ljóð ekki nógu þrungin sjálf og fara að reyna að berja í brestina. En Jónas er Mozart íslenskrar ljóðagerðar. Ekki á færi nema barna og algerra meistara. Gunnar getur þetta. Hinir ættu að einbeita sér að Einari Ben og Davíð. Svoleiðis leðurbarkar þola hvaða rúnk sem er.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort Gunnar Guðbjörnsson er með texta eða ekki. Söngkennararnir hans hafa kennt honum að afskræma málið þannig að það skilur ekki nokkur maður. Verður pínlega augljóst þegar þeir Bergþór syngja tvísöng í Íslandfarsældar.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og einhverjum hefur þótt það snilldarhugmynd að rappa Gunnarshólma. Verst að Hundur í óskilum er búinn að gera það svo sláandi mikið betur en Benedikt Erlingssyni tekst hér, þó hann sé í hettuúlpu.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og lagið hans Atla Heimis við Álfareiðina er snilld. Stundum virka tækifærislög Atla eins og hálf-kæruleysisleg, en þetta er meistaralegt og frelsar ljóðið umsvifalaust úr viðjum hins gamla lags og gefur því líf á ný.

Það er dagur íslenskrar tungu...
og það hefur svo sannarlega verið vandaverk að velja verðlaunahafa Jónasar að þessu sinni. Á sjálfu 200 ára afmælinu. Og hversvegna þá ekki að velja einhvern alveg seif. Hinn ástsæla fyrrverandibiskup. Skítt með það þó hann sé augljóslega enginn yfirburðamaður í heimi íslenskunnar þó hann hafi talað málið, skrifað á því og þýtt á það merkileg áróðursrit sinnar kreddu. Og verið elskulegur maður.

Tvö nöfn:

Helgi Hálfdanarson

Vigdís Finnbogadóttir

Nei, höfum þetta innan fjölskyldunnar. Innan The establishment.

Þýðing óskast.

7 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

...og ég vil bæta því við að það var fullkomlega verið að gefa unga fólkinu utanundir með þessari fúlu slepjulegu dagskrá.

Í leikskólum, grunnskólum og menntaskólum fer allt á haus þennan dag þar sem markmiðið er að vekja áhuga unga fólksins á Jónasi og íslenskunni. Erfiðið er til lítils þegar áhuginn er svæfæður aftur í sjálfri afmælisveislunni um kvöldið. Til hverra átti þessi dagskrá eiginlega að höfða?

3:18 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Mafían?

Ég get nú reyndar ekki tekið undir þá skoðun að Davíð og Einar séu "leðurbarkar" en mikið þætti mér viðeigandi að þessi botnlausa Jónasardýkun yrði aflögð og yndisleg alþýðuskáld eins og t.d. Páll Ólafsson, Jóhannes úr Kötlum og Jónas Árnason fengju ponkulítið meira vægi hjá establishmentinu. Það er til skammar að landinn skuli varla geta nefnt eitt kvæði eftir önnur skáld en Jónas, Davíð, Einar, Tómas og Stein.

3:47 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Góð skáld Einar og Davíð, en óneitanlega með meira þol gagnvart MSG-nálgun sumra ljóðlesenda en Jónas.

Og já, mikið væri nú gott ef Páll Ólafsson væri metinn að verðleikum. T.d. með því að dreifa disknum Söngur Riddarans sem víðast.

4:10 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Og í þessum þætti má heyra Óskilahundana flytja Gunnarshólma: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4367104

Húrra fyrir þeim - og pylsugerðarmanninum...

12:25 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Og þú gleymdir alveg að minnast á það að ég á afmæli á þessum fína degi!

11:33 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Og samkvæmt nýjustu mælingum; Ljótu hálfvitarnir líka. Það verður nú gaman þegar Þjóðleikhúsdagskráin verður tileinkuð afmælinu þeirra á degi íslenskrar tungu.

11:57 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Fá þeir ljótu ekki bara viðurkenninguna á næsta ári? Þó ekki væri nema fyrir smalavísurnar...

1:26 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim