föstudagur, desember 15, 2006

Hálfvitagangur

Ljótu hálfvitarnir spila á Rósenberg annaðkvöld frá kl. 23. Það verður nú gaman.

Fyrir þá sem hafa ekki fylgst með alveg upp á síðkastið þá eru Ljótu hálfvitarnir ekki lengur tríó með mér, Ármanni og Sævari, heldur oktett með mér, Ármanni, Sævari, Bibba, Baldri, Oddi Bjarna, Gumma Svafars og Agga.

Hljómsveitirnar Ljótu hálfvitarnir og Ripp, Rapp og Garfunkel ákváðu semsagt að fylgja fordæmi viðskiptalífsins og sameinast undir nafni þeirrar fyrrnefndu. Ekki er vitað hvort Samkeppnisstofnun hefur eitthvað við þetta að athuga, en vel má vera að lögfræðingur tónlistargyðjunnar leggi fram tónsýslukæru. Vitaskuld er stefnt að markaðsráðandi stöðu undir nýja vígorðinu: "helmingi fleiri en bítlarnir".

Allavega - þetta er þrusuband og ætlar að halda uppi taumlausu fjöri í nafla akústískrar tónlistar annaðkvöld. Mætið eða verið ferköntuð ella. Ég lofa að jafnvel einörðustu og þaulsætnustu aðdáendur hvorrar hljómsveitar fyrir sig munu heyra eitthvað nýtt - og gamla standarda í nýjum búningum að auki. Svo er bjórinn góður á Rósen.

Og ef bloggvinir vorir sjá þetta mega þeir vitaskuld plögga líka. Fyrirvarinn er skammur (við erum að hlaupa í skarð) og okkur langar að hafa sem mest af fólki sem langar að hlusta.

Öppdeit: Vígorðið er að sjálfsögðu "Helmingi stærri en Bítlarnir". Og þá er vert að hafa í huga að Bítlarnir voru stærri en Jesús. Auk þess má geta þess að auk vígorðsins fer allt innra starf sveitarinnar fram undir einkunnarorðunum "Æfingin skapar hálfvitann".

7 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég verð víst að sætta mig við ferkantaða tilveru:-( en ég verð sko í anda á Rósenberg, sit fremst fyrir miðju og klappa mikið... Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

9:15 f.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Oj, hvað mig langar hroðalega mikið. Huxa að ég spyrji leyfis um hvort ég má halda áfram að vera úti að leika mér eftir hátíðarsýningu á Ráðskonu Bakkabræðra.

12:18 e.h.  
Blogger fangor sagði...

minns langar og kæmi væri ég ekki til spáns.

5:25 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Sameining? Heitið þið þá ekki Ljótu Hálfvitarnir Group?
Vala

5:33 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

iss verð að vera ferköntuð - en vænti þess að þið komið til móts við þá aðdá-endur og annað fiðurfé og spelið sem fyrst aftur

7:10 e.h.  
Blogger Ásta sagði...

*væl* Vildi að ég hefði heilsu til að mæta

6:08 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta nafn kom vissulega upp sem hugmynd Vala og hefur heyrst úr ýmsum áttum. En að vandlega athuguðu máli var tekin yfirveguð ákvörðun um að nota það ekki. Okkur óaði beinlínis við öllum „group“-píunum.

Næstu skref eru norðurferð, en hljómsveitin treður upp á gamla Bauk á Húsavík milli jóla og nýárs og einnig á Laugum í Reykjadal eftir revíusýningu innfæddra. Þar verð ég reyndar fjarri góðu gamni – ætla að ferkantast í Reykjavík milli hátíða.

11:17 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim