föstudagur, desember 28, 2007

Lúkas 2:14

Varríus fékk nýju biblíuna í jólagjöf. Það er nú gaman. Heyrði svo Jólaguðspjallið útundan mér við kartöfluskræl og svoleiðis á aðfangadagskvöld. Hrökk svolítið við þar sem eitthvað hafði breyst í þessum texta sem allir kunna utanað. Hafði samt ekki heyrt neina umræðu um það.

En jú. Vers 14, ávarp englanna til fjárhirðanna, hafði verið "lagfært":
Dýrð sé guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.
Árið 1981 var það hinsvegar:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknurn á.
Og árið 1961 var kveðið enn fastar að orði:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með þeim mönnum, sem hann hefur velþóknun á.Leturbreyting Varríusar
Nú er nýja þýðingin hvað þetta varðar öllu geðþekkari en þær fyrri, og hefði t.d. alfarið hindrað uppákomuna á Ingólfstorgi fyrir nokkrum árum þar sem Eyvindur P. Eiríksson dró augljósar og rökréttar ályktanir af orðalaginu frá 1961 og truflaði þar með veislugleðina.

Engu að síður hljóta að vaxa ýmsar spurningar við svona augljósa merkingarbreytingu:

a) Er nýja þýðingin örugglega réttari útlegging á "kai epi ges eirene en anþrópois eudokías" eins og frasinn ku hljóma í frumritinu?

b) Og ef svo er, vissu menn það í alvörunni ekki árið 1981? Hafa orðið svona byltingarkenndar framfarir í útleggingu á forngrísku á þessum 26 árum?

c) Hvaða kennilegu afleiðingar hefur þessi merkingarbreyting á orðum englanna? Því allir læsir menn hljóta jú að sjá að nýja setningin hefur afgerandi aðra merkingu en sú gamla.

d) Úr því kirkjunni láðist að gera grein fyrir þessari leiðréttingu fyrir jól (sem er vissulega óheppilegt í ljósi þess hve stór hluti sóknarbarnanna kemur bara í kirkjunna á jólunum og fengu því þessa umbyltingu beint í andlitið. ef svo má segja) hvenær megum við eiga von á útskýringu á því að við höfum árum saman trúað því að engill drottins boðaði okkur á jólanótt að einungis þeir sem guð hefði velþóknun á mættu vænta friðar, en nú biður þessi sami engill okkur friðar og velþóknunar án þess að friðurinn sé rökleg afleiðing velþóknunarinnar?

e) Og svo mega kirkjunnar menn aðeins íhuga hvernig það kemur heim og saman að í vandlegan lestur heilagrar ritningar megi sækja visku og andlegan styrk, og að á sama tíma megi athugasemdalaust umorða jafnvel þekktustu og merkingarbærustu kafla hennar þannig að merking þeirra snúist á haus. Og hvort hægt sé að sækja siðferðilegt kennivald til fólks sem þannig kemur fram við þau verðmæti sem þau sjálf telja dýrmætust.

6 Ummæli:

Blogger Eyja sagði...

Mér þykir þú fara í geitarhús að leita ullar að ætla að gera kröfu um einhverja glóru í þessu.

12:21 f.h.  
Blogger Eyja sagði...

Ég rakst á áhugaverða grein á sænsku um þennan þýðingarvanda. Þetta er greinilega eitthvað sem túlkað hefur verið á marga vegu gegnum tíðina:
http://www.bibeln.se/exbiblia/ex_artikel_arkiv.jsp?id=47

Og eins og sjá má hafa enskumælandi líka gruflað yfir þessu og komist að mismunandi niðurstöðum: http://bible.cc/luke/2-14.htm

Vesen á þessum englum að þurfa endilega að tjá sig á einhverri margræðri grísku.

2:28 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Takk fyrir það. Ég hef vitað af þessu "vandamáli" um nokkurn tíma. Spurði reyndar einu sinni út í það á Vísindavefnum og fékk nokkuð tvílráð svör.

það sem truflar mig f.o.f. er að nú sé skyndilega valið að þýða öðruvísi, velþekktan og dáðan ritningarstað, og engin opinber umræða, útskýring eða neitt.

Að mínu mati hefði ekki verið ofrausn að helga predikunina því að réttlæta nýju útlegginguna.

12:54 e.h.  
Blogger Eyja sagði...

Tja, sumir mundu nú telja þetta svar sem þú fékkst framar vonum.

Hvenær fór síðast fram vitræn opinber umræða um eitthvað sem tengdist trúmálum hér á landi? Mér hefur sýnst þjóðkirkjumenn innstilltir á að hin ýmsu stefnumál kirkjunnar, hvort sem þau varða líf fólks eða þær kenningar sem fólki er ætlað að skrifa undir, komi almenningi harla lítið við. Hvurs lags frekja er þetta í þér að gera kröfu um einhverjar skýringar eða umræðu? Vertu bara góður strákur og kyngdu.

2:49 e.h.  
Blogger Kristín sagði...

Traduire c'est trahir.

6:18 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég hugsa að "kirkjunnar menn" hafi í gegnum tíðina gerst dálítið mikið sekir um að túlka - og setja fram túlkanir sínar - í samræmi við sannfæringu sína, sem er í það og það skiptið í samræmi við gildandi siðferðiskreddur samtímans (og helst gildandi kreddum lengst aftur í xxx). Það verður víst seint sem ég fæ skilið hvers vegna menn taka svo bókstaflega það sem þýtt hefur verið úr öðru tungumáli sérstaklega þegar við, sem töum sama tungumál, getum misskilið hvert annað (viljandi eða óviljandi). Sérstaklega er auðvelt að misskilja hinn ritaða texta- það þekkja allir sem sent hafa textaskilaboð- Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum það víst við sjálf sem berum mesta ábyrgð á því hvort það er friður á jörðu, milli þjóða, milli þjóðfélagshópa, innan fjölskyldunnar eða við okkur sjálf. Ætli það sé ekki helst þar sem guð hefur helst velþóknun á okkur, þegar okkur tekst að vera í sátt við okkur sjálf. Það er í það minnsta mín sannfæring að sá sem er í jafnvægi hafi minnstan áhuga á að atast út í aðra (halda friðinn).
En þetta er kannski ekki akkúrat það sem þú ert að tala um, Varríus minn. Það er rétt það er stórkostlegur merkingarmunur á þessum tveimur textum. Persónulega finnst mér betra að þrengja þetta ekki of mikið, hverjum guð hefur velþóknun á. En þá komum við aftur að því sem ég sagði fyrst- hver tók að sér að túlka eða þýða fyrri útgáfur, hvert var þeirra viðmið, var þeirra útlegging eitthvað réttari?
Við gerum ekkert annað en að skemmta skrattanum ef við ætum að eltast við bókstafinn.
Mataruppskriftir- til hvers eru þær?
Afhverju þarf að réttlæta nýja útleggingu ef sú gamla er ekkert endilega réttust? Má breyta Biblíuþýðingu? já endilega en ekki til að hagræða heldur til að gæta þess að festast ekki í viðjum vanans og drepa innihaldið.

11:46 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim