miðvikudagur, júlí 25, 2007

Ofboðið

Las í morgun þennan pistil á nýja Eyjavefnum. Ágætur vefur reyndar. Pistillinn stuðaði mig illa svo ég skrifaði silfrinu bréf. Ekkert kommentakerfi á síðunni, svo ég birti bréfið bara hér (sagði Agli vitaskuld frá því að ég myndi gera það).

Sæll Egill

Sjálfan grunar mig líka að drjúgur hluti hinna athafnasömu andófsmanna í Saving Iceland séu hálfgerðir kjánar, en ef helstu rökin fyrir því eru jafn grunnhyggnisleg og þau sem þú færir fram í færslunni þinni um efnið þá fer ég að efast um að þau sé ein um það sálarástand.

1. Myndin
Þessi sláandi mynd af hreindýrinu í flæðarmálinu er augljóslega ekki „rök“ fyrir einu né neinu, ekki dæmi um „hugmyndirnar um landið sem samtökin byggja á“. Hún er þarna til áhersluauka. Þessi mynd er búin að birtast víða, og erfitt að ímynda sér að maður sem fylgist jafn vel með og þú hafir ekki séð hana fyrr.

Og ef þér mislíkar notkun myndmáls sem höfðar til tilfinninga í áróðursefni þá held ég að þú ættir að finna þér verðugri skotmörk.

Ég er ekki góður í hollensku, en fæ ekki betur séð en textinn með myndinni snúist um hið klassíska aðfinnsluefni náttúruverndarsinna að stærstu ósnortnu víðernum Evrópu stafi hætta af ásælni virkjunarsinna og stóriðju. Kannski ekki djúpt eða frumlegt, en ef þetta er „kjánalegt“ þá þarftu að fara víðar með þá einkunn, er það ekki?

2. Kortið
Kort þetta kom út á vegum Náttúruverndarsamtaka Íslands og fleiri íslenskra félagasamtaka á síðast ári (að ég held). Ekki minnist ég þess að þú hafir kallað höfunda þess kjána, enda ítarlega rökstutt hvað verið er að meina með myndinni. Ætti að vera auðhrakið ef rökin halda ekki.

Og aftur á ég bágt með að trúa að þú hafir ekki séð bæklinginn, jafnötull samfélagsskyggnir og þú ert.

3. Viðtalið
Eitt er nú að Vef-Þjóðviljinn nenni að skrásetja orðrétt hikst og vandræðagang óvans manns í útvarpsviðtali, þegar hann heldur fram skoðunum sem þeim þykja ógeðfelldar. Það þarf samt ekki skarpskyggnan mann til að greina að þarna ber Snorri fram einhverja algengustu og sterkustu mótbáruna við síaukinni álframleiðslu (endurvinnsluhæfni áls er reyndar eitt af því sem álverið í Straumsvík notar sem rök fyrir ágæti framleiðslu sinnar í áróðursefni sínu). Vissulega ósmekklegt hjá Vefþjóðviljamönnum og fyrir neðan beltisstað, en svoleiðis vesalmennsku býst maður kannski við frá þeim bæjardyrunum.

En að þér þyki sæma að hafa þetta eftir, þér og smásálum í lesendahópnum til þórðargleði og eins og klaufaskapurinn sé innlegg í umræðuna, er eiginlega með ólíkindum. Hlustar þú ekki á þinn eigin þátt? Heldur þú að allir sem þar tala hver ofan í annan kæmu vel út úr svona meðferð? Heldur þú að ÞÚ kæmir flekklaus út?

Öppdeit: Fann kommentakerfi og stakk þessu þar inn. Veit ekki hvort það tóxt.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim