fimmtudagur, maí 04, 2006

Klukk i borg

Ef það er ekki bara búið að klukka mann eina ferðina enn! Grrr... en hvað, það er nú mín góða og skemmtilega vinkona hún Ásta þannig að það verður ekki undan skorast. Svo er þetta líka óvenju skemmtilegt klukk.

Ég er nefnilega lestrarfíkill eins og kom fram í gömlu klukki. Og ástuklukk fjallar um bækur.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Hér kemur bara ein bók til greina. Ég man svosum ekki af hverju ég las Sölumaður deyr eftir Arthur Miller, man ekki einu sinni hvenær það var. Man bara að ég var gersamlega heillaður og taldi fullvíst að ef fólk almennt yrði skyldað til að lesa þessa bók þá myndi allt samfélag manna umbreytast til hins betra á svipstundu. Sennilega (vonandi) var ég talsvert ungur.

Fleiri áhrifaríkar:

Tilraun um manninn eftir Þorstein Gylfason sannfærði mig um að heimspeki væri málið. Svo ég fór að læra hana.

Rannsóknir í heimspeki eftir Wittgenstein sýndi mér fram á að heimspeki er ekki ætluð fyrir þá sem hafa bara áhuga á henni eða hæfileika til hennar. Hún er fyrir fólk sem sefur ekki á nóttunni af áhyggjum af undirstöðum orsakalögmálsins eða efasemdum um tilvist Synthetic a Priori sanninda. Svo ég hætti.

Tóma rýmið eftir Peter Brook kenndi mér hvar kjarninn í leikhúsinu er þegar allt er með felldu. Svo ég gefst aldrei upp.

Þrúgur reiðinnar eftir Steinbeck kenndi mér að hata óréttlæti og skilja af hverju það er óhjákvæmilegt í mannlegu samfélagi. Jafnvel mikilvægt.

Hundrað ára einsemd opinberaði galdur frásagnarinnar.

2. Hvaða tegund bóka lestu helst? Skáldsögur, krimma, ævisögur, ljóð eða eitthvað annað?

Ég les óhemjulega mikið af afþreyingarbókmenntum. Sumt er drasl, en sumt ekki. Stephen King er ekki drasl. Robert B. Parker er ekki drasl. Það er aldrei tímasóun að týna sér í að dást að meisturum að störfum.

Ég les mikið um leikhús. En helst ekki teóríu. það er meira að græða á ævisögum og dagbókum fólks sem ég hrífst af. Það vill nefnilega gleymast að allt tal um "dýpt" í umfjöllun er líkingamál. Frábærlega orðuð og hugsuð setning um hvernig tiltekinn leikari virkaði á gáfaðan höfund í tilteknu hlutverki getur verið meira virði til að læra af en tvöhundruð blaðsíður af teóretísku torfi.

Ég les líka slatta af leikritum, þó ekki eins mikið í seinni tíð og einu sinni var.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Telling Tales eftir Alan Bennett.


4. Hvurs kyns ert þú?

Drengur.

Og svo klukkast Bibbi
og Gummi klukkast svo
og svo klukkast Margeir
og Ylfa klukkast svo!
Með sínu lagi

1 Ummæli:

Blogger Ásdís sagði...

uppáhalds bækurnar mínar... eru Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi... hvað segir það um mig ?

5:57 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim