mánudagur, mars 06, 2006

Skildingurinn

Í annað sinn sem ég sé Túskildingsóperuna á sviði og aftur gerðist það sama ca. 15 mínútum fyrir hlé. Ég huxaði: Nú þau ætla ekki að hafa hlé - en gaman.

Svo kom hlé og ég huxaði: Hvað í ósköpunum gerist eftir hlé, annað en Makki verður (ekki) hengdur?

Það kom líka á daginn, aftur, að lopateygjur Brechts reyna ansi mikið á þolrif manns í seinni hlutanum.

Sýningin kom mér á óvart. Hún var skemmtilegri en ég þorði að vona, tilþrifaríkur leikur og attitjúd í öllu saman. Tónlistarflutningur afbragð, söngur að mestu flottur þó einstaka númer liði fyrir lopakennda textameðferð. Sennilega væri það góð fjárfesting fyrir Þjóðleikhúsið að fá samhljóðaþrælapískarann dr. Tótu í heimsókn eins og einu sinni fyrir hvern söngleik. Sessunautur minn í leikhúsinu vildi meina að nýja fína hljóðkerfinu og óstjórn þess væri um að kenna, enda meiri sándnjörður en ég. Mín reynsla er hinsvegar sú að leikarar eru aldrei skammaðir nógsamlega fyrir textaframburð i söngtextum, og held mig við þá skýringu.

þetta leikár er óðum að verða hátíð þýðendanna. Karl Ágúst fer á kostum í Pétri Gaut og Davíð Þór á frábæra spretti í Túskildingnum fyrir utan að eiga allt það áheyrilegasta í Virkjuninni. Varríus gerir svo ráð fyrir, og ætlast til, að lárviðarskáld síðunnar, sjálfur Sævar Sigurgeirsson skáki þeim báðum í Átta konum

Já, þetta var bara nokkuð skemmtilegt. Kannski voru mellurnar aðeins of klisjulegar og kátar með hlutskipti sitt, og vel má vera að status Makka hnífs hefði grætt á að undirmenn hans bæru smá virðingu fyrir honum. En fokkit, þetta er nú bara skemmtiverk.

Ay, there's the rub.

Af hverju kóa allir með Brecht? Af hverju taka menn mark á því að hann þykist hafa eitthvað merkilegt þjóðfélagslegt erindi? Ef eitthvað slíkt er að finna í Túskildingnum þá er það:

a)löngu úrelt
b) illa formúlerað
c) rangt.

Þessvegna hefði átt að hlæja að "kostunarskiltahugmyndinni" á einum hugmyndafundi og henda henni svo. Hún er bara asnaleg, og er orðin þreytt vel fyrir hlé.

Sýningin lifir þetta að mestu af. Ólafur Egill er flottur, Egill og Ólafía Hrönn líka og mynd af Höllu Vilhjálmsdóttur ætti að setja í orðabækur við orðið "Show-Stopper".

Sem minnir mig á að fyrir nokkrum árum fór ég í leikhús, sá menntaskólasýningu og skrifaði eftirfarandi:
Halla Vilhjálmsdóttir fer frábærlega vel með þetta erfiða hlutverk [Sally Bowles], leikur, syngur og dansar geislandi af öryggi. Hún gerir hin þrjú stóru söngnúmer Sallyar algerlega að sínum og nær síðan að skila dramatísku lokaatriðinu þannig að gleymist ekki í bráð. Glæsileg frammistaða.

Heimild hér
Bara nokkuð gott semsagt, en ekki eins merkilegt og það þykist vera. Þess má svo geta í lokin að ef fólk langar að eiga þessa snilldarlegu tónlist á diski þá mælir Varríus með þessari útgáfu.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim