föstudagur, janúar 13, 2006

Það lygnir

Nú er lokið 1. þætti í stóra DV málinu: Sá-sem-getur-haft-stærstu-gífuryrðin-um-DV-hefur-sterkustu-siðferðisvitundina-og-vinnur.

Vonandi líður öllum betur eftir þá geðhreinsun.

Og vonandi verður setningunum: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar", "Saklaus uns sekt er sönnuð" og málleysan "taka sitt eigið líf" pakkað niður með jólaskrautinu eftir ofnotkun síðustu sólarhringa.

Og vonandi verður nú hægt að fara að taka til. Æskileg útkoma frá mínum bæjardyrum:

Að DV haldi áfram að koma út og haldi áfram að segja frá hlutum sem öðrum finnast ekki í frásögur færandi, en reyni að sýna örlítið meiri stillingu, talsvert minni illkvittni og umtalsvert minni hroka og óbilgirni þegar þeim verður á í stóru og smáu.

Mikael og Jónas féllu (fyrirsjáanlega) á þessu síðasta prófi og það er trúlega þess vegna sem þeir þurftu að axla sín skinn.

Gamli góði Hubrisinn lætur ekki að sér hæða.

Og leiklistargagnrýnandinn er tekinn við.

Hmmm... Ætli sé ekki farið að hitna undir Styrmi?

8 Ummæli:

Blogger Gummi Erlings sagði...

Varðandi málleysuna "að taka sitt eigið líf", þá vill Árni Bö í bókinni Íslenskt málfar (eða Íslenzkt málfar) að menn "fargi sér". En það var reyndar fyrir daga Sorpu, svo kannski væri hann annarrar skoðunar í dag. Blogger vill hins vegar að menn "gwqsdrez sér", enda er ekki fyrir gáfnafarinu að fara hjá því kvikindi.

6:36 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Já, þetta er gósentíð fyrir þá sem vilja slá sig til riddara. Það sem mér fannst nú eiginlega sjúkast í þessari illræmdu fyrirsögn var áherslan á að maðurinn var einhentur. Hvaða máli skipti það?

Þeir hjá DV hefðu nú líka alveg getað sagt sér að ef þeir nafngreindu nógu marga meinta kynferðisglæpamenn í stríðsfyrirsögnum hlyti einhver þeirra fyrr eða síðar að kjósa þessa leið frekar en lifa við almenningsálitið. Við erum nefnilega svo andskoti dómhörð.

8:31 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Já, við erum dómhörð. Sem betur fer berum við enga ábyrgð á því, heldur sendiboðinn sem færir okkur þá sem dæma á.

Og ef sendiboðinn hefur vogað sér að minnast í framhjálaupi á eitthvað sem engu máli skiptir - þá fyrst skal hann hengdur.

9:45 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Bloggerinn mælir með að við notum frekar ujzyy til að ganga frá honum.

10:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Tók líf sitt einni hendi?

11:04 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þú meinar: "Féll fyrir einni hendi" í stað "eigin".

Það heitir líka að drepa sig með einari.

Annars er hálfsjúkt að við séum farin að hafa þetta í flimtingum. Bið forláts.

Jwxcewsz er annars undarlegasta stafsetning á orðinu "excuses" sem ég hef séð.

12:57 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hm.. Ég er alls ekki sammála þér núna kæri Varríus. Eins og reyndar oft áður. Núna get ég hinsvegar ekki orða bundist vegna þess að mín fjölskylda hefur orðið "fyrir barðinu" á DV um dagana. Þá átti sér hörmulegur atburður sér stað sem þeim lúalegu blaðasnápum þótti ágætis uppsláttarfrétt. Þeir fóru með rangt mál fyrir það fyrsta, nafngreindu alla þá sem stóðu að málinu og bókstaflega ofsóttu aðstandendur. Þannig var að maður sem tengist mér lést í íbúð sinni og þar sem hann bjó einn uppgötvaðist lát hanns ekki fyrr en tveim vikum eftir dauða hans. það eitt og sér var hræðilegt áfall fyrir syni mannsins og þeirra fjölskyldur, og það hljóta allir þeir að skilja sem snefil hafa af samkennd og siðferðisvitund, að það bætti síst líðan þeirra að lesa æsifrétt um málið á forsíðu DV, þar sem aðstandendur voru allir nafngreindir ásamt algjörlega óþörfum og ógeðslegum lýsingum á aðkomu lögreglu og sjúkraflutningamanna. Þetta var birt daginn eftir að börn þessa manns fengu að vita um lát föður síns. Einnig ýjaði blaðið á ógeðfelldan og ósmekklegan hátt að vanrækslu fjölskyldunnar á þessum gamla manni sem lést. Mér fyrirgefst því vonandi fyrir að taka þátt í þeim "lummóheitum" að hafa stór orð um blaðamensku DV manna og komi það út sem svo að ég sé að reyna að "slá mig til riddara" í þessari "gósentíð" fyrir fólk eins og mig.. þá verður svo að vera. Ég hef andstyggð á blaðinu, mun aldrei kaupa það og dettur ekki í hug að reyna að "skera mig úr almúgaumræðunni" til að hljóma dálítið svalari en ég er. Mér finnst vissulega smart að vera svalur, en ekki ef það er á kostnað þeirra samúðartilfinninga og réttlætiskennd sem Guð gaf mér ríkulega af í vöggugjöf. Þessvegna mun ég halda áfram að slá mig til riddara, taka þátt í lummulegri umræðunni og vona að Þjóðin sameinist um að koma þessháttar götublaðamennsku úr okkar litla samfélagi sem smæðar sinnar vegna þolir alls ekki slíkan fréttaflutning.
Sökum reiði minnar get ég ekkert annað sagt en vmikms!

1:28 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Kæra vinkona

ég skil reiði þína út í blaðið í ljósi þessarar ljótu sögu - En ég er ekki sáttur við þau orð sem þú beinir að mér.

Orðin sem þú setur í gæsalappir eru ekki frá mér komin, raunar eru sum þeirra ekki tilvitnanir í neinn, heldur þín eigin, og ekki smekklegt af þér að gera viðmælendum þínum (mér?) þannig upp skoðanir.

Mér sárnar líka ef þú heldur að mínar skoðanir séu byggðar á óheilindum, að ég sé að reyna að vera svalur með því að halda fram óvinsælum málstað af einhverskonar Morfís-ástæðum.

Eins og þú veist ef þú fylgist með skrifum mínum hér þá hefur DV oft borið á góma. Stundum hef ég leyft mér að tala í hálfkæringi um ánægju mína með hinar litríku fréttir sem þar birtast. Stundum hef ég skrifað í fúlustu alvöru um að blaðið gegni mikilvægu hlutverki. Iðulega hef ég bent á að ég taki því sem þar stendur með fyrirvara.

Þannig nálgast ég blaðið. Og burtséð frá allri meðfæddri réttlætiskennd þá finnst mér það ekki síðri afstaða en að "hafa andstyggð" á blaðinu, kaupa það aldrei (og þá væntanlega lesa það ekki) en hafa samt á því heitar og altækar skoðanir og gefa í skyn að þær séu betur grundaðar enn annarra.

En takk fyrir ádrepuna - nú verð ég víst að skrifa langhundinn sem ég var búinn að ákveða að nenna ekki að skrifa.

En þú hefur jú svo gaman af hundum :)

12:28 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim