miðvikudagur, desember 05, 2007

Eilífðarsmáblómabeð

Gummi Erlings vekur máls á þjóðsöngvamálum á bloggi sínu. Enda Guðvorslansinn enn kominn í umræðuna.

Nú er víst búið að tónflytja hann og gefa út versjón sem hentar mezzósóprönum. Áfram sennilega of hár fyrir baritóna eins og mig og "Strákana okkar". En óneitanlega hjákátlegt að það þurfi opinbera aðila og áratuga japl til að gefa góðfúslegt leyfi fyrir jafn sjálfsögðum hlut og transpósi. Sennilega í fyrsta sinn í veraldarsögunni sem tónflutningur verður frétt.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig að við Íslendingar, sem stærum okkur (með nokkrum rétti) af því hvað þjóðfélagið er óformlegt og laust við stífleika, lítið um titlatog, engar þéringar, bukt og beigingar, skulum ganga lengst allra í að banna eðlilegan umgang við tákn og andlegar sameignir okkar. Engu má hnika í Þjóðsöngnum, fáninn er heilagur, helgidagar kirkjunnar lögvarðir fyrir fólki sem mögulega getur ekki tekið þá til sín og vill halda áfram bolloki sínu.

Og svo er hitt, sem Vantrúarmenn hafa nú aftur vakið máls á: Að ljóð Matthíasar Joch. er ekki beinlínis sameinandi núna á þessum fjölmenningartímum. Og þó við létum það nú eiga sig þá hefur lengi verið nokkuð ljóst að kvæðið fjallar strangt tekið ekki um ... Ísland.

Þetta hafa fleiri bent á. Frábær er ritgerð Guðmundar Andra Thorssonar sem birtist t.d. í greinasafninu hans, Ég vildi að ég kynni að dansa. Þar rekur hann kost og löst á lagi Sveinbjarnar og ljóði Matta og tilgreinir nokkur lög sem nefnd hafa verið og kaupir ekkert þeirra alveg. Það er líklega til marks um tíðarandann að ekki veit ég til að Andra hafi verið hótað líkamsmeiðslum fyrir að hafna Land míns föður á þeirri forsendu að óviðeigandi væri að nefna bara föðurinn. Lengi var ég á því að röksemdir hans gegn Hver á sér fegra föðurland væru léttvægar og það best til þjóðsöngs fallið. Finnst það enn koma til greina, þó ekki sé það líklegt til að berja lötum og áhugalausum fótboltastjörnum baráttuanda í brjóst.

Sjálfur stingur Andri upp á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson sem er svona:

Þið þekkið fold með blíðri brá
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Aldeilis glæsilegt ljóð, þó vantrúarmenn setji kannski spurningarmerki við cameo-innkomu Jahves í lokin. Tvö lög ku vera við kvæðið, eitt eftir Helga Helgason trésmið og annað eftir Atla Heimi Sveinsson. Hef heyrt það síðarnefnda, sem er snoturt en klárlega ekki þjóðsöngur.

Mér finnst tvennt vænlegast:

Að yrkja nýtt kvæði við Guðvorslansinn sem heldur sig betur við efnið. Lagið finnst mér nefnilega frábært og það er mikið kikk að syngja það (eða allavega bassann, lög heimila ekki að ég reyni við melódíuna).

Hagmæltir lesendur Varríusar mega gjarnan spreyta sig á nýju ljóði í kommentakerfinu ef þeir nenna.

Og ef á að skipta alveg út þá veit ég um rétta lagið, og ljóðið:
Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta, þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tíminn margra spor,
þá man og elskar kynslóð vor
sitt fagra föðurland, sitt föðurland.

Við tölum íslenskt tungumál.
Við tignum guð og landsins sál
og fornan ættaróð.
Þeir gjalda best sinn gamla arf,
sem glaðir vinna þrotlaust starf
til vaxtar vorri þjóð, til vaxtar þjóð.

Á meðan sól að morgni rís
og máni silfrar jökulís
og drengskapur er dyggð
skal fólkið rækta föðurtún
og fáninn blakta efst við hún
um alla Íslands byggð, Íslands byggð.
Davíð Stefánsson
Reyndar bæði "Guð" og "Faðir" í ljóðinu, en kostir þess vega það svo sannarlega upp. Göfugar hugsjónir, eldheit ást á landi og þjóð, nett remba.

Og lagið kórónar það. Úr Háskólakantötu eftir Pál Ísólfsson. Fallegt, hátíðlegt og kraftmikið. Ætti að virka eins og æðiber í afturendan á jafnvel latasta framherja.

5 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Má örugglega tala um "drengskap"?

Minns bara spyr sig af eintómum stráksskap...

12:12 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég greiði atkvæði með "land míns föður". Föðurland og móðurmál, góð og gild orð.

10:55 e.h.  
Blogger Varríus sagði...

Gott lag. Kúl er kannski orðið

Soldið snubbótt einhvenvegin samt.

11:24 e.h.  
Blogger Hildigunnur sagði...

Ekki lagar lagið sönghæfnina á fóbboltaleikjunum mikið, áttund og sexund í tónsvið (munar hálftóni frá guðsvorslandsinum) En lagið er snilld.

hér er önnur tillaga, þetta gæti ekki farið illa í neina trúarhópa, allavega...

10:30 f.h.  
Blogger Varríus sagði...

Hehe...

Mig grunar reyndar að tónsviðið sé ekki einrátt um hvort menn ráða við lög eða ekki.

Held að rembukikkið í "Útúrsæ" komi að góðum notum við að ná hæstu tónunum, nokkuð sem vantar í Hinn hægferðuga og milda guðvorslans.

11:00 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim