miðvikudagur, mars 15, 2006

Sexhleypa

Íslendingar urðu að vonum svekktir þegar Síðasti bærinn fékk ekki óskarinn sem besta stuttmyndin. Þó svo að óséð sé myndin einhver sú minnst lokkandi sem ég hef lengi heyrt um (hljómar eins og samfelld klisja, frá nafni og niðrúr).

En hva, áfram Ísland!

Og svo voru ekki síður vonbrigði að Six Shooter, myndin sem vann, hljómaði í lýsingum íslenskra óskarsspekinga vægast sagt ótrúlega óspennandi líka. Einhver írsk þunglyndispilla um hörmungar hversdagsfólks.

Víkur nú sögunni til New York. Þar skrifar um leikhús betur en aðrir menn John nokkur Heilpern. Í nýjasta pistli sínum fjallar hann um löngu tímabæra frumsýningu á The Lieutenant of Inishmore eftir Martin "Koddamann" McDonagh þar í borg, en verkið fjallar á ótrúlega fyndinn og subbulegan hátt um hryðjuverkamenn almennt og IRA sérstaklega, og þar sem það var á Londonfjölunum á haustdögum 2001 þá þótti það ekki passa fyrir fíngerðar taugar amríkana svona meðan rykið úr World Trade Center var að setjast (eða flytjast til Íraks, en það er önnur saga).

En nú er sumsé komið að því. Grein Heilperns er bráðskemmtileg og hann bendir réttilega á að Lieutenantinn er klárlega næstbesta leikrit McDonaghs, á eftir Koddamanninum, og þeir sem það verk þekkja vita að fá leikrit eiga erindi í annað sætið á eftir því. Heilpern finnst reyndar að Halti Billi sé betra leikrit en Fegurðardrottningin frá Línakri, en það er jú líka til fólk sem finnst gaman að horfa á Formúluna, svo það þýðir ekkert að væla yfir því.

En allavega...

Í framhjáhlaupi í greininni kemur fram að nýjasta afrek McDonaghs er að vinna Óskarsverðlaun. Eða réttara sagt, skrifa handrit að óskarsverðlaunamynd. Nefnilega fyrrnefndri Six Shooter!

Og skyndilega er orðið alveg bráðnauðsynlegt að sjá hana. Og aðeins minna svekkjandi að Síðasti bærinn skyldi tapa. Það er engin skömm af að lúta í lægra haldi fyrir snjallasta sögumanni samtímans.

Vona bara, og tek þar undir með John Heilpern kollega mínum, að þetta verði ekki til þess að hin illa kvikmyndamaskína gleypi gaurinn.

3 Ummæli:

Blogger Gummi Erlings sagði...

Og það er ekki eftir neinu að bíða:
http://www.channel4.com/film/reviews/film.jsp?id=154712

12:26 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

"He looks like the man out of Bronski Beat"
"The gay man?"
"Ay, the gay man"

Næs...

12:41 e.h.  
Blogger Gummi Erlings sagði...

Tók líka eftir því að McDonagh skrifað handrit OG leikstýrði myndinni. Ekki slæmt fyrir byrjanda...

4:17 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim