fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Orð, orð, orð

Vefritið Múrinn vekur athygli á nýkjörnu orði ársins hjá Hinu Ameríska Mállýskufélagi. Orðið er Truthiness sem Múrverjar þýða snarlega og hnittilega sem Sannileikur, og vísar til þess eiginleika að trúa (eða halda fram) því sem maður vill að sé satt í stað hins sem er vitað að er það.

Þetta er frábært orð og afar nauðsynlegt til að lýsa hugarheimi margra - ekki síst stjórnmálamanna og alls ekki síst amerískra valdsmanna nú um stundir.

En Mállýskufélagið veitir verðlaun í fleiri flokkum. Hér er hægt að sækja lista yfir alla verðlaunahafana og þá sem komust næst því líka. Svo er þarna skrá um verðlaunahafa fyrri ára. Það ætti t.d. hvorki að koma höfundum Víruss né öðrum á óvart hvað var orð ársins 1999.

Skemmtileg leið fyrir orðhengla til að rifja upp tíðaranda og tíðindi fyrri ára.

Og þá vaknar spurningin:

Hvað er orð ársins 2005 á Íslandi?

Hvaða orð er líklegast til að lifa áfram?

Hvað var ónauðsynlegasta nýyrðið?

Í hvaða orði fólust mestu skrauthvörfin?

Orðið er laust!

1 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Mér dettur alltaf í hug hið dásamlega orð "umhverfisblindur" sem reyndar er orðið gamallt og rótgróið í málfari okkar BÍL-skólanema. Þetta var lýsing Júlíusar Freys á ónefndum manni og mér finnst þetta eitt hið besta lýsingarorð sem ég hef tamið mér! Kannski var þetta orð til áður, ég veit það ekki. Ég hafði í það minnsta ekki heyrt það fyrr. En það er svo dásamlega rökrétt og á við svo margt.

Hvað árinu 2005 viðkemur.. hmmm... Ég ætla að hugsa það aðeins. Það hlýtur að vera eitthvað ný-póstmódernískt orð í það minnsta. kansski mwpsgf?

12:09 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim