föstudagur, desember 14, 2007

Að pissa saltpækli

Nú hyllir undir að þéttsettu hálfvita- og menningarprógrammi haustsins ljúki og nokkrir dagar gefist í jólastúss, reyndar meðfram vinnu og ritstörfum. En það er nú bara venjulegt.

Sönghópurinn Hjárómur tók þátt í jólaskemmtun Hugleiks og gekk bara vel, sungum m.a. nýtt lag eftir Helgu Ragnarsdóttur við texta bróður hennar um ömurðina við að vera í kór. Fyndið og flott og tilvalið sem encore-lag fyrir þá kóra sem taka sig ekki þeim mun hátíðlegar.

Hálfvitar hafa að vanda verið út um allt, nú síðast að spila undir jólatrésskemmtun Stundarinnar okkar sem verður sýnd um jólin að hefðbundnum hætti. Í kvöld líkur svo hálfvitaárinu með einkasamkvæmi fyrir stórt og mikið verktakafyrirtæki. Erum á kafi í pólskunámi.

Og talandi um stundina: út er kominn diskur með lögunum úr Stundinni frá í fyrra. Undarlegt hús heitir hann og er skyldueign. Gríðarlega skemmtileg lög, sniðugir textar og frábærar útsetningar hljómsveitarinnar Börn síns tíma (Baldur, Gben, Loftur og Jón Geir).

Um daginn brugðu Hálfvitar sér svo í hljóðver og tóku upp jólalag eitt íðilhresst, og stígur þar fram sem hálfvitatónskáld Oddur Bjarni. Lagið heitir Afslöppuð jól og fjallar um frumlega leið til að vinda ofan af jólastressinu og komast í verndað umhverfi yfir hátíðarnar. Lagið má sækja hingað.

Jólalagakeppni Rásar 2 stendur nú sem hæst og vill tónlistardeild Varríusar vekja sérstaka athygli á tveimur lögum. Annarsvegar hinni hugsúru nostalgíuballöðu Túpílaka, Bernskunnar jól, þar sem eftirlætisjólalagsljóðlína Varríusar kemur fyrir í lok viðlags, og hinsvegar Heill þér Jesú massívum progg-ópus Hraunverja, en aðdáendur framsóknarrokks hafa löngum átt erfitt með að finna jólatónlist við sitt hæfi. Mig grunar reyndar að ég syngi bakraddir í lagi Hrauns, en vil samt endilega að lesendur geri upp hug sinn varðandi lögin og stjórnist af eigin sannfæringu og smekk.

Hlustunar- og kjörklefinn er hér.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim