mánudagur, febrúar 06, 2006

Týndir á heiðinni

Bara ekkert bloggað!

Fór til London. Sá þetta, þetta, þetta, þennan gaur, þessa líka, en þó kannski fyrst og fremst þetta. Mun skrifa pistil í Moggann um skoðunarspil þessi, og verð því í þagnarbindindi hér.

Er á fullu að setja upp lítinn leikþátt eftir tvo ættliði af austfirskum kellingum. Það er gaman. Og er aðeins byrjaður á næsta stórvirki Hugleiks. Ekki síður skemmtilegt það.

Og svo vil ég náttlega sjá ykkur öll í Þjóðleikhúskjallaranum á miðvikudaginn. Þar verður fyrrnefndur kellingaþáttur sýndur, og sungið kórverk eftir mig líka. Það gerir nýlega stofnaður og nýnefndur kammerkór, Söngsveitin Hjárómur. Það finnst mér líka gaman.

Eru Jósku ritstjórarnir og skopteiknararnir þeirra ekki svolítið eins og óvenju heimskar og félagslega vanþroskaðar rjúpnaskyttur? Æða af stað vanbúnar og fáfróðar upp á heiðar þar sem óbeisluð náttúruöflin geisa, vitandi að þeim verður bjargað.

Það er nefnilega prinsipp að bjarga fólki, líka hálfvitum sem áttu að vita betur.

Því miður er ekki í boði að velja sér orrustuvöll til varnar tjáningarfrelsinu. Árásir á það eru einatt gerðar í skuggahverfunum. Þess vegna er allt rétt sem Guðmundur Andri segir í Fréttablaðinu í dag. En innræti ritstjóra Jyllandsposten er aukaatriði eins og mál hafa þróast.

Það er nefnilega prinsipp að það má hæðast að skoðunum fólks. Líka trúarskoðunum. Líka ef þeir sem hæðast eru drullusokkar.

Og þetta prinsipp verður að verja. Þó ekki væri nema af þeim eigingjörnu ástæðum að ég vil geta skrifað svona án þess að þurfa að fara í felur.

Prinsippið er einfalt - smáatriðin flókin. Það á ekki síst við um þetta mál. Ef fólk langar í fyllri mynd af stöðu mála mælir Varríus með Juan Cole.

Ef fólk langar frekar í hressilegar ádrepur en upplýsingar þá má t.d. fá soleiðis hjá Christopher Hitchens og Enteri.

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Það gilda reglur um klæðaburð í Kaþólskum kirkjum og flestir reyna að hylja sem mest af beru holdi þegar stigið er inn í Péturskirkjuna í Róm. Þetta eru reglur sem gilda hjá hinum kaþólsku og okkur hinum þykir sjálfsagt að virða þær. Með sama hætti mætti hugsa sér að virða reglur sem snúast um myndir (eða ekki myndir) af Múhammeð án þess að miklu sé hætt.
Munur á dæmunum sem slíkum er lítill en allt sem fylgir ólíkt. Viðbrögð við því að koma fáklæddur í krikjuna felast ekki í hótun um líflát, kröfu um opinbera afsökunarbeiðni þjóðarleiðtoga eða fánabrennum. Bara vinsamlega koma aftur aðeins meira klæddur.
Þannig að jú; víst mátti sleppa því að teikna en fyrst að svo fór þá á að verjast. Rétt Varríus. Reglurnar um fáklæðin og teiknibannið eru trúarreglur en ekki mannréttindamál, sem tjáningarfrelsið er hins vegar. Getur verið að heimurinn væri hreinlega skárri trúarbragðalaus?
Blogger er svo þreyttur á trúarbragðaveseni: rmknlgn!

11:44 e.h.  
Blogger Sigga Lára sagði...

Önnur kellingin hverrar heiður leikþátturinn góði er, er reyndar vestfirsk. Hin er hálf-austfirsk og hálf-vestfirsk. Little known fact...

12:25 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þær ömmgur gætu kannski kallað sig "Vestfirsk" og "Svo-smá-versna-rún". Ef það væri ekki jafnóviðeigandi og raun ber vitni.

1:52 f.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim